Hollenska landsliðið í handknattleik undir stjórn Eyjamannsins Erlings Richardssonar tapaði fyrir sænska landsliðinu með fjögurra marka mun, 34:30, í fyrri vináttuleik liðanna í Alingsås í Svíþjóð í kvöld. Hollenska landsliðið verður með íslenska landsliðinu í riðli á EM sem hefst eftir viku.
Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 19:19. „Það tók okkur smá tíma að stilla okkur af í fyrri hálfleik en við komum sterkir til baka í mjög hröðum fyrri hálfleik eins og tölurnar bera með sér,“ sagði Erlingur við handbolta.is fyrir stundu.
„Við erum bara á nokkuð góðu róli um þessar mundir en margt getur breyst á nokkrum dögum,“ sagði Erlingur ennfremur en hann tefldi fram 18 leikmönnum í leiknum í kvöld og náði þannig að dreifa álaginu en um leið að gefa mönnum tækifæri á að sýna hvað í þeim býr.
Síðari viðureign Svíþjóðar og Hollands verður á laugardaginn. Fer hún einnig fram í Alingsås þar sem sænska landsliðið er við æfingar fyrir EM. Að þeim leik loknum hefur hollenska landsliðið leikið fimm vináttuleiki á undirbúningstímanum síðan á milli jóla og nýárs.
Ísland og Holland mætast á EM sunnudaginn 16. janúar í Búdapest í annarri umferð B-riðils.