ÍBV var ekki í vandræðum með að vinna Selfoss í lokaleik 10. umferðar Olísdeildar kvenna í handknattleik í Sethöllinni á Selfossi í dag. Lokatölur, 40:29 fyrir ÍBV sem var sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 20:13.
ÍBV er þar með á nýjan leik komið upp að hlið Vals í efsta sæti Olísdeildar með 16 stig eftir 10 leiki. Selfoss er næst neðst með fjögur stig.
Strax eftir 10 mínútur í leiknum í dag hafði ÍBV rifið sig frá leikmönnum Selfoss. Eyjaliðið hafði töluverða yfirburði allt til leiksloka. Ekki stóð steinn yfir steini í vörn Selfoss og markvarslan var samkvæmt því.
Eyjakonurnar Sandra Erlingsdóttir og Birna Berg Haraldsdóttir voru öflugar. Auk þess að skora drjúgt af mörkum átti Sandra átta stoðsendingar og Birna sex.
ÍBV mætir ÍR á heimavelli á miðvikudaginn í síðasta leik liðanna fyrir áramót. Selfoss tekur á móti Haukum á fimmtudagskvöld.
Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 7/3, Adela Eyrún Jóhannsdóttir 5, Mia Kristin Syverud 5, Victoria McDonald 3, Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Inga Sól Björnsdóttir 2, Eva Lind Tyrfingsdóttir 2, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 1, Arna Kristín Einarsdóttir 1.
Varin skot: Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 10, 22,7% – Sara Xiao Reykdal 1, 14,3%.
Mörk ÍBV: Alexandra Ósk Viktorsdóttir 9, Amelía Dís Einarsdóttir 8, Sandra Erlingsdóttir 6/2, Birna Berg Haraldsdóttir 6, Ásdís Halla Hjarðar 6, Birna María Unnarsdóttir 3, Klara Káradóttir 1, Margrét Björg Castillo 1.
Varin skot: Amalia Frøland 12, 36,4% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 3/1, 30%.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.





