ÍBV leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla eftir að hafa unnið FH í þrígang í undanúrslitum. Þriðji og síðasti sigurinn varð raunin í kvöld í Kaplakrika í framlengdum háspennuleik, 31:29. Jóhannes Berg Andrason tryggði FH-ingum framlengingu þegar hann jafnaði metin, 27:27, í lok venjulegs leiktíma. FH var marki yfir í hálfleik, 15:14.
Eyjamenn voru sterkari í framlengingu. Það setti strik í reikning FH-liðsins að Sigursteinn Arndal þjálfari fékk tveggja mínútna refsingu í framlengingunni. Þá var FH marki yfir, 28:27. ÍBV skoraði þrjú mörk manni fleiri.
Ekki liggur fyrir hvort ÍBV mætir Aftureldingu eða Haukum í úrslitum. Staðan er jöfn, hvort lið hefur einnig vinning og mæta þau næst í Mosfellsbæ annað kvöld.
ÍBV-liðið er á mikill siglingu um þessar mundir og hefur ekki tapað leik í úrslitakeppninni í fimm viðureignum.
Úrslitaleikir verða á hverju strái í Vestmannaeyjum á næstunni því í gærkvöld innisiglaði kvennalið ÍBV sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í Olísdeild kvenna.
Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 10/5, Jón Bjarni Ólafsson 5, Birgir Már Birgisson 4, Jóhannes Berg Andrason 4, Jakob Martin Ásgeirsson 4, Einar Bragi Aðalsteinsson 3, Jóhann Birgir Ingvarsson 1, Einar Örn Sindrason 1.
Varin skot: Phil Döhler 13/1, 33,3% – Axel Hreinn Hilmisson 1, 20%.
Mörk ÍBV: Kári Kristján Kristjánsson 9/3, Rúnar Kárason 7, Gabríel Martinez Róbertsson 5, Dagur Arnarsson 5, Arnór Viðarsson 3, Janus Dam Djurhuus 2.
Varin skot: Petar Jokanovic 9/1, 47,4% – Pavel Miskevich 6, 24%.