Íslenska landsliðið fær ekki æfingatíma í keppnishöllinni, Zagreb Arena, fyrr en á fimmtudagsmorgun, að morgni fyrsta leikdags. Útilokað var að komast í tíma í keppnishöllinni á morgun miðvikudag, daginn fyrir leik. Yfirleitt hafa landslið fengið æfingatíma í keppnishöllinni daginn fyrir fyrsta leikdag.
Á meðan hefur liðið fengið æfingatíma í tveimur minni keppnissölum í Zagreb, í gærkvöld, síðdegis í dag og á morgun. Liðinu stendur til boða tvær æfingar í æfingasal á morgun.
Ös síðdegis
Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ sagði við handbolta.is að hann reiknaði með annar tíminn verði nýttur á morgun. Í síðdegisumferðinni í Zagreb tekur um klukkustund að komast fram og til baka á æfingu í þeim sal sem æft verður í síðdegis í dag. Í eðlilegri umferð tekur aksturinn um 30 mínútur. Það er víðar ös í síðdegisumferðinni en í Reykjavík.
Laust í reipunum
Margt er laust í reipunum hjá skipuleggjendum í Króatíu. Á sama tíma og allt skipulag liggur fyrir dögum saman hjá Dönum og Norðmönnum, sem halda mótið ásamt Króötum, skila upplýsingar sér seint til þeirra liða sem eru með bækistöðvar í Zagreb. Væntanlega er svipað upp á teningnum í Porec og Varazdin þar sem einnig er leikið í riðlakeppni HM karla.
Á hóteli íslenska landsliðsins, nærri miðborg Zagreb, búa sjö lið. Þau verða að skipta með sér fjórum fundarbergjum. Að öllu eðlilegu þá hefur hvert landslið sitt fundarherbergi á hótelum en þau oft einnig nýtt sem geymsla fyrir ýmsan varning sem liðin hafa með sér s.s. fatnað sem mikið er af.