Leikmenn heimsmeistaraliðs Danmerkur í handknattleik karla ættu að eiga fyrir salti í grautinn á næstunni. Hver og einn þeirra fær 220.000 danskar krónur, jafnvirði um 4,5 milljóna króna, frá danska handknattleikssambandinu fyrir sigurinn á heimsmeistaramótinu. Alls eiga 20 leikmenn von á greiðslu inn á reikninga sinn.
Sagt er frá þessu á vef ekstrabladet. Þar segir ennfremur að um heldur lægri upphæð sé að ræða en hver leikmaður fékk fyrir sigurinn á HM fyrir tveimur árum. Skýringin er sú að núna skipta 20 leikmenn með sér verðlaunapottinum en þeir voru 18 sem tóku þátt í HM í Egyptalandi. Til skiptanna eru jafnvirði um 90 milljónir íslenskra króna.
Jafnt gengur yfir alla. T.d. fær Lasse Møller, sem varð að draga sig út úr landsliðinu á miðju móti vegna meiðsla, sömu upphæð greidda og sá sem tók þátt í öllum leikjunum níu.
Danska handknattleikssambandið er með samning við alla leikmenn landsliðsins um greiðslur til þeirra fyrir að taka þátt í stórmótum. Þegar verðlaun koma í hús þá hækka greiðslurnar til muna. Stór hluti verðlaunafjárins kemur í gegnum styrktarsamninga danska handknattleikssambandsins við fyrirtæki.
Danska landsliðið náði þeim sögulega árangri að verða heimsmeistari í þriðja sinn í röð, nokkuð sem engu landsliði hefur áður tekist í karlaflokki.
- Molakaffi: Sandra, Elías, Aldís, Jóhanna, Berta, Harpa María
- HM “25: Leikjadagskrá, úrslit, staðan
- Aron er kominn í „100 marka klúbbinn“ – mörkin þrjú – myndir
- Nú er röðin komin að alvöru leikjum
- Mikilvægt fyrir mig og liðið