Færeyingar standa vel að vígi í 6. riðli undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik eftir að hafa unnið Hollendinga, 32:31, í Almere í Hollandi í dag. Færeyska liðið er í efsta sæti riðilsins með fimm stig eftir fjóra leiki og hefur auk þess innbyrðis betri stöðu gegn Hollendingum, þrjú stig en Hollendingar eitt en lið þjóðanna skildu jöfn í þjóðarhöllinni í Þórshöfn á miðvikudagskvöldið, 32:32.
Úkraínumenn hafa fjögur stig eins og Hollendingar. Úkraína vann Kósovó, 36:25, í dag. Kósóvar er með þrjú stig. Þeir mæta Færeyingum í Pristina 7. maí. Færeyska liðið á heimaleik við Úkraínu í síðustu umferð riðlakeppninnar sunnudaginn 11. maí.
Færeyska landsliðið var nánast eins og á heimavelli í Almere í Hollandi. Um 1.000 Færeyingar fylgdu liðinu til Hollands og drógu ekki af sér í stuðningnum. Reyndust áhorfendur vera áttundi leikmaður færeyska landsliðsins í leiknum en það hafði frumkvæðið lengst af. Staðan var jöfn í hálfleik.
Allan var öflugur
Allan Norðberg leikmaður Vals var mjög öflugur í færeyska liðinu. Hann lék í skyttustöðunni hægra megin og skoraði fimm mörk og gaf tvær stoðsendingar. Elias Ellefsen á Skipagøtu var að vanda markahæstur með átta mörk og sex stoðsendingar. Frændi hans, Óli Mittún var næstur með sex mörk. Hægri hornamaðurinn Hákun West Av Teigum og línumaðurinn Ísak Vedelsbøl skoruðu fimm mörk hvor eins og Allan.
Hinn 22 ára gamli markvörður Pauli Jacobsen átti stórleik. Ekki síst í síðari hálfleik.
Portal.fo fjallar ítarlega um leikinn í Hollandi í máli og myndum.
Steins var með
Rutger ten Velde var markahæstur hjá hollenska lansliðinu með átta mörk. Leikstjórnandinn snjalli Luc Steins var með hollenska liðinu í leiknum í dag en hann var ekki þátttakandi í fyrri viðureigninni í Þórshöfn. Steins skoraði fimm mörk og átti tvær stoðsendingar.