Á fyrstu tveimur stundunum eftir að opnað var fyrir miðasölu til Færeyinga á leiki Evrópumótsins í handknattleik karla seldust á að giska um 1.700 miðar af þeim 2.200 sem Handknattleikssamband Færeyja hefur til umráða. Þetta kemur fram á færeyska fréttvefnum Portal.fo.
Eins og áður hefur komið fram á handbolti.is er runnið handboltaæði á Færeyinga eftir að landsliðið tryggði sér í fyrsta sinn þátttökurétt á EM. Viðbrögðin við miðasölunni sem var opnuð fyrir hádegið staðfestir að svo sé. Næsta víst er að það sem óselt var af miðum upp úr hádeginu mun renna út.
Færeyska landsliðið verður í riðli með Noregi, Slóveníu og Póllandi sem leikinn verður í Mercedes Benz Arena 11.,13. og 15. janúar.
Miðasala HSÍ hefst eftir helgina
Miðasala á leiki íslenska landsliðsins á EM á vegum HSÍ er ekki hafin. Kjartan Vídó Ólafsson markaðsstjóri HSÍ sagði við handbolta.is í gær að stefnt væri að hefja sölu eftir komandi helgi.
Almenn miðasala á mótið er fyrir löngu hafin á heimasíðu mótsins. Þeir sem kaupa beint af heimasíðunni geta hafnað í sætum fjarri íslenska hópnum sem kaupir miða í gegnum HSÍ.