Ljóst er að færeyska landsliðið verður ennþá öflugra en áður þegar það mætir til leiks á morgun í átta lið úrslitum heimsmeistaramóts 21 árs landsliða karla í Berlin. Þjálfarar liðsins kölluðu í vikunni eftir ungstirninu Óla Mittún. Hann er kominn til Berlínar og verður klár í slaginn ef þörf verður á gegn Serbum í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Með komu Óla er ljóst að Færeyingar herða róðurinn í áttina að sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins.
Óli, sem er nýlega orðinn 18 ára gamall, er einn allra efnilegasti handknattleiksmaður Evrópu í dag. Hann hefur verið undir smásjá stærstu félagsliða Evrópu og var m.a. orðaður við Pick Szeged í Ungverjalandi í vor. Hann kemur úr akademíu H71 í Hoyvík í Þórshöfn.
Óli varð markahæstur og besti leikmaður Evrópumóts 18 ára landsliða á síðasta ári og var vitanlega einnig valinn í úrvalslið mótsins. Hann er frændi Eliasar Ellefsen á Skipagøtu sem er heilinn á baki við stórkostlega frammistöðu færeyska landsliðsins á heimsmeistaramótinu til þessa.
Fer aftur á HM í ágúst
Eftir því sem næst verður komist glímdi Óli við meiðsli í lok keppnistímabilsins í Svíþjóð í vor og var þar af leiðandi ekki valinn í keppnishópinn fyrir U21 árs mótið. Til viðbótar er frammundan þátttaka á öðru stórmóti hjá Óla þegar heimsmeistaramót 19 ára landsliða verður haldið í Króatíu og verður vitanlega að gæta þess að ganga ekki nærri pilti.
Lék Úkraínumenn grátt
Óli fór á kostum með A-landsliði Færeyinga í vor þegar það lagði Úkraínu í Þórshöfn í undankeppni EM. Sigurinn lagði grunn að því að færeyska landsliðið tryggði sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Þýskalandi í janúar.