- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Færeyingar kræktu í stig á elleftu stundu í fyrsta heimaleik í þjóðarhöllinni

Fjör var á fyrsta heimaleik Færeyinga í nýju þjóðarhöllinni í kvöld. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Leivur Mortensen tryggði Færeyingum dramatískt jafntefli, 32:32, gegn Hollendingum í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í kvöld en leikurinn var jafnframt fyrsti landsleikur Færeyinga í sinni nýju og glæsilegu þjóðarhöll sem vígð var á dögunum, Við Tjarnir. Mortensen skoraði jöfnunarmarkið á síðustu sekúndu er hann stökk inn úr vinstra horninu.


Kátt var á hjalla Við Tjarnir í kvöld. Troðfull keppnishöll af áhorfendum, liðlega 3.000 manns. Fengu færri miða en vildu enda seldist upp á leikinn á um tíu mínútum.

Færeyingar voru lengi vel yfir í leiknum og höfðu fjögurra marka forskot í hálfleik, 18:14, og 21:17, þegar um 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Hollendingar unnu sig inn í leikinn og virtust ætla að taka með sér stigin tvö. Færeyska liðið lagði allt í sölurnar og tókst að bjarga stiginu.

Elias Ellefsen á Skipagøtu var markahæstur í færeyska liðinu með 11 mörk. Hákun West Av Teigum var næstur með sjö mörk og þar á eftir kom Óli Mittún með fimm mörk. Valsarinn Allan Norðberg skoraði tvö mörk en Bjarni í Selvindi skoraði ekki, ekkert fremur en Aftureldingarmaðurinn Hallur Arason.

Rutger ten Velde skoraði 12 mörk í 14 skotum fyrir hollenska landsliðið.


Færeyingar sækja Hollendinga heim á sunnudaginn. Nærri 1.000 Færeyingar fylgja landsliðinu eftir í leikinn.

Hollendingar eru efstir í 6. riðli með fjögur stig eftir þrjá leiki. Færeyingar hafa þrjú stig. Úkraína er með tvö stig og Kósovó eitt. Lið þjóðanna mætast annað kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -