- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fáum góðan tíma til að stilla saman strengina

Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Stuttgart. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Staðan á okkur er nokkuð góð. Vissulega er hundleiðinlegt að þurfa annað árið í röð að vera lokaður inni á hóteli áður farið er á stórmót. En við gerum allt til að gera gott úr ástandinu, æfa vel og forða okkur eins og kostur er frá öllum smitum,“ sagði Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í gær.

Viggó Kristjánsson er 28 ára gamall Seltirningur sem leikur nú með Stuttgart í Þýskalandi. Viggó á að baki 21 landsleik sem hann hefur skoraði í 55 mörk. Hans fyrsta stórmót var EM 2020 í Svíþjóð. Þá tók Viggó þátt í sjö leikjum og skoraði 12 mörk. Viggó var einnig með landsliðinu á HM í Egyptalandi fyrir ári og skoraði 18 mörk í fimm leikjum.

Meiri fyrirvari í fyrra

„Þetta er svipað og í fyrra. Munurinn er helst sá að í fyrra þá vissi maður með góðum fyrirvara að við yrðum nánast í einangrun á hótelinu. Að þessu sinni var það óvænt vegna þess að lengi vel var útlit fyrir að við gætum orðið frjálsari á milli æfinga áður farið væri út. Svona er ástandið og ekkert við því að gera,“ sagði Viggó sem er á leið á sitt þriðja stórmót í röð með íslenska landsliðinu. Liðið heldur utan til Búdapest á þriðjudagsmorgun.

Til stóð að leika tvo leiki við landslið Litáen í kvöld og á sunnudaginn. Eins og kom fram í fréttum fyrr í vikunni féllu leikirnir niður eftir að landslið Litáen kaus að halda undirbúningi sínum áfram heima í stað þess að koma hingað til lands. Allir forðast í lengstu lög að ferðast og verða fyrir covidsmiti. Viggó telur það vera slæmt fyrir undirbúning landsliða almennt fyrir EM að hafa ekki tækifæri til þess að leika einn eða tvo leiki í aðdraganda stórmóta.

Ekki einir í þessum sporum

„Við erum svo sem ekki eina landsliðið sem er í þeim sporum að ná ekki leik fyrir mótið. Því er ekki að neita að það er betra að ná einum eða tveimur leikjum, komast aðeins í takt hver við annan þar sem við leikum nánast hver hjá sínu félaginu.


Á móti kemur að við fáum góðan tíma til þess að stilla saman strengina. En maður hefði alltaf kosið að fá einn leik. Það ekki það sama að stilla upp í tvö lið á æfingu og að leika keppnisleik,“ sagði Viggó.

Erfitt að rýna í möguleikana

Víggó telur að framundan sé spennandi mót. Erfitt sé að rýna í möguleikana og hvernig mótið yfir höfuð spilast. Mörg liðanna glíma við að leikmenn eru frá æfingum um lengri eða skemmri tíma vegna veirunnar og ekki er heldur hægt að útiloka að röskun verði á liðsskipan þegar á hólminn verður komið í Ungverjalandi og Slóvakíu þar sem Evrópumótið fer fram.


„Vonandi getur mótið farið fram á sem eðlilegastan hátt án frestana og mikilla skakkafalla. Eins er óskandi að áhorfendur mæti í einhverjum mæli á leikina og setji þannig svip á þá. Það væri langskemmtilegast,” sagði Viggó ennfremur.

Fjórar örvhentar skyttur

Fimm örvhentir leikmenn eru í íslenska landsliðshópnum að þessu sinni. Fjórir sem leika alla jafna í skyttustöðunni hægra megin. Auk Viggós eru það Kristján Örn Kristjánsson (Donni), Ómar Ingi Magnússon og Teitur Örn Einarsson. Aðeins er einn „ekta“ hægri hornamaður, Sigvaldi Björn Guðjónsson í 20 manna hópnum. Af þessu leiðir að einhver af skyttunum fjórum verður að hlaupa í skarðið fyrir Sigvalda Björn inn á milli og saman við.

„Guðmundur þjálfari [Þórður Guðmundsson] hefur uppi áætlanir um að ég og Teitur Örn verðum til taks að leysa Sigvalda af. Það kemur í ljós hvernig mál þróast. Framundan eru margir leikir og framtíðin ein sker úr um hvað gerist.“

Ánægður með ástandið

Viggó var fingurbrotinn framan af keppnistímabilinu og lék ekkert af þeim sökum. Hann hefur leikið af krafti með Stuttgart síðan í byrjun nóvember eftir að hafa jafnað sig. Viggó hefur skorað 6,4 mörk að jafnað í leik í þýsku deildinni og átt fjórar stoðsendingar að meðaltali. Hann segist vera ánægður með stöðuna á sér og hlakkar til EM.


„Ég er í fínu standi og er þokkalega sáttur við árangur minn í síðustu leikjum. Um leið er ég ánægður með að hafa náð fyrri styrk. Ég fer þar af leiðandi fullur sjálfstrausts inn í Evrópumótið með samherjum mínum í íslenska landsliðinu,“ sagði Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -