- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fékk skilaboð í caps lock: HRINGDU STRAX!

Þráinn Orri Jónsson ræðir við Elís Þór Rafnsson sjúkraþjálfara á æfingu landsliðsins í MVM Dome í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég var ræða við kærustuna í heima í hádginu í gær þegar síminn tók að hringja látlaust. Mér datt ekki í hug að láta símann trufla samtal okkar og hundsaði hann þótt ég sæi að Einar Jóns væri að hringja. Um leið og samtali mínu og kærustunnar var lokið leit ég á símann. Þar voru skilaboð frá Einari rituð í caps lock um að hringja strax. Ég beið þá ekki boðanna og sló á þráðinn til Einars sem sagði mér að Gunni Magg vildi heyra í mér ekki seinna en strax,“ sagði Þráinn Orri Jónsson hvar hann lék á als oddi í MVM Dome íþróttahöllinni í Búdapest á leiðinni á æfingu með landsliðinu í handknattleik.


Þráinn lýsti aðdraganda þess að hann er kominn til Búdapest og er skráður til leiks með íslenska landsliðinu í handknattleik sem tekur þátt í Evrópumótinu í handknattleik. Þráinn og Darri voru valdir í landsliðshópinn í gær eftir að Janus Daði Smárason og Arnar Freyr Arnarsson fóru í einangrun í hádeginu í gær.


Dagurinn var fyrst að byrja þegar hann hringdi til Gunnars Magnússonar aðstoðarþjálfara landsliðsins að beiðni Einars Jónssonar, aðstoðarþjálfara Hauka.

Upphófst þá mikið kapphlaup

„Ég hringdi í Gunna og þá kom upp úr kafinu að hann vildi fá mig út til Ungverjalands í einum grænum hvelli. Ég rauk strax af stað í PCR próf og þaðan að ná búnað á skrifstofu HSÍ áður en ég kom við í búð að kaupa í matinn. Eftir að heim var komið skipti ég um föt og var nánast rokinn út á flugvöll með sama,“ sagði Þráinn Orri ennfremur um ævintýralega atburðarrás gærdagsins sem lauk með komu til Búdapest í nótt sem leið. Niðurstöðuna úr PCR prófinu fékk hann rétt áður en flugvélin fór í loftið frá Keflavík.


Þráinn Orri var ekki inn í 35 manna hópnum sem valinn var fyrir Evrópumótið en eftir að reglur voru rýmkaðar og heimilt að kalla inn menn utan hópsins sagðist Þráinn Orri haft á bak við eyrað að til þess gæti komið að til hans yrði leitað þótt hann hafi vonað að til þess þyrfti ekki að koma.

Get vonandi hjálpað til

„Tækifærið var óvænt. Vonandi get ég lagt lóð á vogarskálarnar ef þörf verður á að nýta mína krafta,“ sagði Þráinn Orri sem nýlega hefur jafnað sig af covid eftir að hafa smitast fyrir um hálfum mánuði. Hann er tilbúinn að mæta Króötum á morgun gerist þess þörf.

Oft hugsað þeim þegjandi þörfina

„Ég hef oft hugsað Króötum þegjandi þörfina í gegnum tíðina fyrir ýmis bolabrögð sem þeir hafa beitt í leikjum. Ef ég get hjálpað liðinu þá er ég klár í slaginn ef þjálfararnir vilja láta reyna á mig,“ sagði Þráinn sem er hvergi banginn, ekki fremur en fyrri daginn.


Þráinn sagði lítið hafa fylgst með leiknum eftir að hann var kominn á Keflavíkurflugvöll á sjötta tímanum í gærkvöld. Hann hafi verið frekar stressaður vegna þessa skamma fyrirvara og ótta við að gleyma þessu og hinu að hann hafi ekki alveg ráðið við það að fylgjast með leiknum.

Var bara sturlað

„Ég horfði bara á leikinn í heild í morgun eftir að ég hafði vaknað á hótelinu. Þetta er besti varnarleikur sem sést hefur á þessu móti. Sóknarleikinn gat íslenska liðið ekki hafa spilað betur en raun varð á. Allir voru mjög klókir. Þetta var bara sturlað,“ sagði Þráinn Orri Jónsson, nýbakaður landsliðsmaður í handknattleik á leið á landsliðsæfingu í Búdapest fyrr í dag.

Viðureign Íslands og Króatíu í 3. umferð milliriðlakeppninnar hefst klukkan 14.30 á morgun, mánudag. Óvíst er að einhverjir þeirra sem eru í einangrun losni úr henni fyrir leikinn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -