FH-ingar féllu ekki í þá gryfju að vanmeta nýliða Víkings í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Án þess að sýna sparihliðarnar þá unnu FH-ingar sannfærandi og öruggan sigur, 30:21, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10. FH hefur þar með fjögur stig eftir leikina tvo en Víkingar eru með einn vinning.
Víkingar verða seint sakaðir um að hafa ekki barist frá upphafi til enda og ekki reynt eins og þeir gátu. Þeir voru hinsvegar sjálfum sér verstir í sóknarleiknum. Gerðu þar alltof mörg mistök. Fyrir vikið voru mörkin aðeins 21. Varnarleikurinn var ágætur og markvarslan batnaði þegar á leið.
Framan af leik var eins og FH-ingar ætluðu ekki að gera meira en þörf var á til þess að vinna. Víkingar létu finna fyrir sér og eftir leikhlé í stöðunni, 7:5, fyrir FH má segja að heimamenn hafi lagt meira afl í leikinn en áður. Þeir náðu fljótlega sex marka forskoti sem þeir bættu síðan lítillega við snemma í síðari hálfleik og unnu sannfærandi sigur.
Aron Pálmarsson kom ekkert við sögu í leiknum. Hann sat sem fastast á meðal varamanna frá upphafi til enda. Ekki reyndist þörf á að kalla hann út.
Ef Víkingar halda betur á spöðunum í sóknarleiknum er þeim örugglega færar ýmsar leiðir á leiktíðinni.
Mörk FH: Einar Örn Sindrason 6/4, Leonharð Þorgeir Harðarson 4, Birgir Már Birgisson 4, Jón Bjarni Ólafsson 4, Símon Michael Guðjónsson 3, Ásbjörn Friðriksson 3, Jóhannes Berg Andrason 2, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Atli Steinn Arnarson 1, Daníel Matthíasson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 14/1, 45,2%
Mörk Víkings: Jóhann Reynir Gunnlaugsson 6/3, Arnar Steinn Arnarsson 3, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 3, Þorfinnur Máni Björnsson 2, Halldór Ingi Jónasson 2, Agnar Ingi Rúnarsson 1, Styrmir Sigurðarson 1, Daníel Örn Griffin 1, Stefán Scheving Guðmundsson 1, Gunnar Valdimar Johnsen 1.
Varin skot: Daníel Andri Valtýsson 6, 26,1% – Sverrir Andrésson 3, 18,8%.
Leikjadagskrá og staðan í Olísdeildum.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í Kaplakrika í textalýsingu hér fyrir neðan.