- Auglýsing -
- Auglýsing -

FH-ingar lögðu Framara – stórleikur Daníels Freys

Daníel Freyr Andrésson markvörður FH var frábær gegn Fram í Kaplakrika í kvöld. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

FH hóf titilvörnina í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld með sannfærandi sigri á Fram, 27:23, í Kaplakrika. FH-liðið var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda og var m.a. fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:10. Mestur varð munurinn sex mörk í fyrri hálfleik, 14:8.

Daníel Freyr Andrésson átti stórleik í marki FH og var sá sem lagði grunn að sigri liðsins. Hann varði 16 skot, 41%. Ekki hvað síst gerði hann leikmönnm Fram gramt í geði í fyrri hálfleik.

Daníel Freyr lék einnig til sín taka í síðari hálfleik, ekki síst þegar Fram-liðinu tókst í tvígang að minnka muninn í eitt mark, 22:21 og 23:22, þegar hálf níunda mínúta var til leiksloka. Nær komust leikmenn Fram ekki.

Aron Pálmarsson tók til sinna ráða þegar forskot FH var komið niður í eitt mark. Hann lék við hvern sinn fingur og skoraði m.a. tvö mörk sem skildu liðin að.

Aron lék vel, eins Ásbjörn Friðriksson. Hann tók mikilvægar rispur, ekki síst í fyrri hálfleik þegar hann skoraði fimm mörk í röð. Jón Bjarni Ólafsson var öflugur á línunni og sem fyrr var samvinna hans og Arons augnayndi.

Reynir Þór Stefánsson bar sóknarleik Fram á herðum sér. Hann skoraði 10 mörk í 17 skotum auk þriggja stoðsendinga og var hreint frábær. Fleiri hefðu þurft að ná sér á strik en sú var ekki raunin.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson fór af leikvelli þegar um fimm mínútur voru til leiksloka í framhaldi af höggi sem hann fékk á nefið við það reyna að varna Jóni Bjarna Ólafssyni leið að marki Fram.

Mörk FH: Aron Pálmarsson 7, Ásbjörn Friðriksson 5, Jóhannes Berg Andrason 5, Jón Bjarni Ólafsson 3, Garðar Ingi Sindrason 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Símon Michael Guðjónsson 1/1, Birgir Már Birgisson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 16/1, 41%.

Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 10, Ívar Logi Styrmisson 5/1, Rúnar Kárason 3, Erlendur Guðmundsson 2, Eiður Rafn Valsson 1, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 1, Arnar Snær Magnússon 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 10, 35,7% – Breki Hrafn Árnason 2, 18,2%.

Aðrir leikir kvöldsins hjá HBStatz:
Haukar – Selfoss, Olís kvenna.
Stjarnan – HK, Olís karla.
Haukar – Afturelding, Olís karla.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í Kaplakrika í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -