- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjögurra leikja bann fyrir að bíta – sátt milli félaganna en þjálfararnir deila enn

Jorge Maqueda þarf að hugsa sinn gang meðan hann tekur út fjögurra leikja bann í pólsku deildinni. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Spænski handknattleiksmaðurinn Jorge Maqueda hefur verið úrskurðaður í fjögurra leikja bann í pólska handknattleiknum fyrir að bíta Mirza Terzic leikmann Wisla Plock í fyrri hálfleik viðureignar Indurstria Kielce og Wisla Plock á sunnudaginn. Hinn þrautreyndi Maqueda missti stjórn á skapi sínu í leiknum eftir að hafa geigað á markskoti. Eftir að hafa farið yfir upptöku af atvikinu sýndu dómarar leiksins Maqueda rautt og blátt spjald.

21 x 2 mínútur!

Grunnt er ævinlega á því góða á milli leikmanna liðanna tveggja og stuðningsmanna þeirra og var viðureignin á sunnudaginn engin undantekning. Alls var leikmönnum vikið 21 sinni af leikvelli í tvær mínútur.

Stympingar og kynþáttaníð

Eftir að flautað var til leiksloka kom til stympinga á milli leikmanna liðanna. Einnig bar á kynþáttníði og gerðu stuðningsmenn Wisla Plock, sem voru á heimavelli, hróp að leikmönnum Kielce. Félögin sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær. Í henni voru sverðin slíðruð og kynþáttaníð fordæmt.

Sló í brýnu

Til viðbótar sló í brýnu á milli þjálfaranna, Xavier Sabate hjá Wisla og Talant Dujshebaev um leið og flautað var til leiksloka. Sá fyrrnefndi sakaði þann síðarnefna um að hafa hrækt á sig en Dujshebaev sagði Sabate hafa kallað sig „helvítis Kínverja.“

Mál þjálfaranna er komið inn á borð lögreglu. Dujshebaev sagði í fyrradag að Sabate hafi haft horn í síðu sinni frá 2016 þegar Sabate, þá þjálfari Veszprém, tapaði fyrir Dujshebaev og liðsmönnum í Kielce í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Wisla Plock, sem vann leikinn, 29:25, situr í efsta sæti pólsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á undan Indurstria Kielce.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -