Aron Breki Oddnýjarson leikmaður Fjölnis hefur verið úrskurðaður í fjögurra leikja bann af aganefnd HSÍ. Er um að ræða óvenju langt bann. Þetta var niðurstaða nefndarinnar í dag eftir að hafa tekið málið upp að nýju. Aron Breki verður þar með ekki gjaldgengur með Fjölni fyrr en 21. október í leik við Gróttu.
Bætti þremur leikjum við
Aron Breki var úrskurðaður í eins leiks bann í gær en nefndin taldi brot hans í viðureign Fjölnis og Selfoss 2 í Grill 66-deild karla síðasta laugardag mögulega verðskulda lengra bann. Var Fjölni gefinn kostur á að senda inn greinargerð vegna málsins og brást félagið við og fór aganefnd yfir sjónarmið félagsins.
Engu að síður var það niðurstaða aganefndar að úrskurða [ekki dæma, enda hefur aganefnd ekki dómsvald] Aron Breka í fjögurra leikja bann sem tekur gildi á hádegi á morgun.
Óbreytt hjá Þórði og Jóni
Aganefnd tók einnig upp að nýju útilokanir sem Jón Ásgeir Eyjólfsson leikmaður Stjörnunnar og Þórður Tandri Ágústsson leikmaður Þór fengu í leikjum liðanna í 1.umferð Olísdeildar karla. Nefndin taldi á fundi sínum á þriðjudag hugsanlegt að brot þeirra gætu reynst verðskulda lengra bann en einn leik.
Stjarnan og Þór sendu inn greinargerðir vegna málanna. Eftir að hafa farið yfir þær var það niðurstaðan aganefndar að halda sig við eins leikbann á hvorn þeirra.
Jón Ásgeir verður ekki með Stjörnunni gegn ÍBV í Eyjum á föstudag og Þórður Tandri tekur ekki þátt í leik Þórs við Fram í Lambhagahöllinni á laugardaginn.
Aganefnd HSÍ | Úrskurður 10.09. ’25
Brot þriggja leikmanna eru til frekari skoðunar hjá aganefnd