Útilokanir þær sem Andri Fannar Elísson leikmaður Hauka, Pavel Miskevich leikmaður ÍBV og Skarphéðinn Ívar Einarsson leikmaður Hauka hlutu í leik Hauka og ÍBV í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins á síðasta sunnudag leiða ekki til þess að þeir voru úrskurðaðir í leikbann á fundi aganefndar HSÍ í gær. Sama á við Marel Baldvinsson leikmann Fram sem hlaut útilokun í viðureign ÍBV og Fram í Olísdeild karla 13. nóvember í Vestmannaeyjum.
Aganefnd vekur athygli fjórmenninganna á stighækkandi áhrifum útlokana af þessu tagi sem leiða til leikbans ef þeim fjölgar úr hófi.
Tvö meint brot Kára skoðuð
Í úrskurði aganefndar HSÍ er ennfremur tekið fram að nefndin hafi skoðað tvö meint brot Kára Kristjáns Kristjánssonar leikmanns ÍBV í viðureign Hauka og ÍBV í fyrrgreindum leik í Poweradebikarnum og í leik ÍBV og Fram 13. nóvember. Bæði hin meintu brot fóru framhjá dómurum leiksins en komu inn á borð aganefndar frá stjórn HSÍ og eða framkvæmdastjórnar sem hafa haft heimild frá árinu 2020 í reglugerð HSÍ um agamál að vísa málum til nefndarinnar.
Gerðist sekur
„Aganefnd hefur yfirfarið myndbandsupptökur af atvikunum, sem sýna þau frá tveimur sjónarhornum. Að mati aganefndarinnar má slá því föstu að leikmaðurinn hafi gerst sekur um leikbrot sem varðar við reglu 8:6 í leik ÍBV gegn Haukum. Erfiðara er að slá því föstu varðandi meint leikbrot í leik ÍBV gegn Fram og er það niðurstaða aganefndar að leikmanninum verði ekki refsað vegna þess atviks.“
Getur verðskuldað lengra bann
„Hins vegar er það mat aganefndar, með vísan til framangreinds, að brot leikmannsins í leik ÍBV gegn Haukum kunni að verðskulda lengra bann en 1 leik. Með tilvísun til VI. kafla reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að fresta málinu um sólarhring til að gefa félaginu færi á að skila athugasemdum sínum til skrifstofu HSÍ, fyrir kl.17.00, miðvikudaginn 20. nóvember nk. með tilvísun í 1 .mgr. 3. gr. framangreindar reglugerðar,“ segir í úrskurði aganefndar sem nánar má lesa með því að tengjast fréttinni hér fyrir neðan.