Það fjölgar í hópi handknattleikskvenna sem hafa stungið af úr herbúðum landsliða sinn á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni. Á dögunum komst upp að fjórir leikmenn landsliðs Kamerún hurfu út í fjöldann á Spáni. Í morgun var greint frá að leikreyndasti leikmaður íranska landsliðsins, hin þrítuga Shaghayegh Bapiri, væri á bak og burt. Ekkert er vitað hvar hún er niðurkomin.
Lögreglan á Spáni rannsakar málin. Enn sem komið er hún einskis vísari um fjóra landsliðsmenn Kamerún né heldur um írönsku handknattleikskonuna.
Bapiri er örvhent skytta og gríðarlega reynslumikil handknattleikskona. Samkvæmt liðsupplýsingum á heimasíðu Alþjóða handknattleikssambandsins hafði Bapiri leikið 285 landsleiki þegar hún mætti til leiks á HM en aðeins lánast að skora 32 mörk í öllum þessum leikjum.
Íranska landsliðið hafnaði í 31. og næst síðasta sæti eftir að kínverska landsliðið gaf alla leiki sína á dögunum í framhaldi af að smit kórónuveiru stakk sér niður í landsliðshópinn.
Íranska landsliðið var að taka þátt í HM fyrsta sinn. Það var eitt nýrra landsliða sem dyr opnuðust fyrir með fjölgun þátttökuliða HM úr 24 í 32. Fjölgunin kom ekki síst þjóðum utan Evrópu til góða.
Leikmenn íranska landsliðsins máttu ekki fara í viðtöl við fjölmiðla eftir leiki á HM. Þá voru leikir liðsins ekki sendir út í Íran. Ljósmyndir af leikmönnum voru sýndar með fréttum í sjónvarpi af leikjum liðsins og þess gætt að hvergi sæist í léttklædda leikmenn andstæðinganna.