- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Flensburg vann annað árið í röð – Dagur skoraði í úrslitaleiknum

Kevin Møller var frábær í marki Flensburg í báðum leikjum helgarinnar í úrslitum Evrópudeildarinnar. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Þýska handknattleiksliðið vann Evrópudeildina í handknattleik karla annað árið í röð. Flensburg hafði talsverða yfirburði í úrslitaleiknum við franska liðið Montpellier í Barclays Arena í Hamborg í dag. Lokatölur, 32:25. Staðan í hálfleik var 19:13 Flensburg í hag.

Dagur Gautason leikmaður Montpellier skoraði eitt mark í úrslitaleiknum. 

Fyrr í dag hafði THW Kiel betur gegn MT Melsungen í leiknum um þriðja sætið í keppninni. 

Flensborgar-liðið réði lögum og lofum í leiknum að undanskildum fyrstu 10 mínútunum. Danskir landsliðsmenn eru uppistaða leikmannahópsins hjá Flensburg. Þeir létu til sín taka. Markvörðurinn Kevin Møller varði 19 skot, þar af tvö vítaköst.  Lasse Jørgensen skoraði 10 mörk, Emil Jacobsen níu og Lasse Kjær Møller skoraði sex mörk. Þá er nærri því allra ekki getið. 

Kevin Møller var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitahelgarinnar en hann átti einnig framúrskarandi leik í viðureigninni við MT Melsungen í undanúrslitum í gær.

Hugo Bryan Monte Dos Santos skoraði sex mörk fyrir Montpellier og var atkvæðamestur. 

Íslendingar töpuðu bronsleiknum

Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir THW Kiel í viðureigninni um þriðja sæti í keppninni, 37:31, eftir jafna stöðu í hálfleik, 18:18. Kiel-liðið var sterkara í síðari hálfleik. Sóknarmistökum leikmanna MT Melsungen fjölgaði á síðasta stundarfjórðungi viðureignarinnar og þá skildu leiðir. 


Arnar Freyr og Elvar Örn skoruðu fimm mörk hvor fyrir MT Melsungen sem getur nú einbeitt sér að því að vinna þýska meistaratitilinn á síðustu vikum keppnistímabilsins. Fjórar umferðir eru eftir í þýsku 1. deildinni. Strax á fimmtudaginn mætast Melsungen og Füchse Berlin, tvö efstu lið þýsku 1. deildarinnar.

Elvar Örn átti auk þess fjórar stoðsendingar. 

Florian Drosten var markahæstur hjá Melsungen með sex mörk. Íslensku landsliðsmennirnir voru næstir á eftir. 

Daninn Emil Madsen skoraði 12 mörk fyrir THW Kiel. Færeyingurinn Elias Ellefsen á Skipagøtu var næstur með níu mörk auk fimm stoðsendinga.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -