HK steig stór skref í átt að því að halda sæti sínu í Olísdeild kvenna með tíu marka sigri á Gróttu í fyrstu viðureign liðanna í Kórnum í kvöld, 28:18. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir fór á kostum í liði HK. Segja má að hún hafi skotið Gróttu í kaf með 13 mörkum, nærri helmingi allra marka HK-liðsins. Leikmenn Gróttu réðu ekkert við Jóhönnu Margréti sem er á síðasta ári í þriðja flokki. Hún kórónaði frábært keppnistímabil sitt í meistaraflokki með stórbrotinni frammistöðu.
Liðin mætast á ný á þriðjudagskvöld í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi. Miðað við muninn á liðunum í kvöld þá verður það hreinlega slys af hálfu HK að ljúka ekki einvíginu í næstu viðureign. Munurinn er afar mikill á þessum liðum.
Auk stórleiks Jóhönnu Margrétar þá lék HK-liðið góða framliggjandi vörn frá upphafi til enda sem leikmenn Gróttu áttu í mesta basli með. Upp úr varnarleiknum sköpuðust hraðaupphlaup í síðari hálfleik sem urðu til þess að munurinn fór úr fjórum mörkum í hálfleik, 12:8, upp í 10 áður en yfirlauk.
Mörk HK: Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 13, Sigríður Hauksdóttir 4, Karen Kristinsdóttir 2, Tinna Sól Björgvinsdóttir 2, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 2, Berglind Þorsteinsdóttir 1, Kristín Guðmundsdóttir 1, Þóra María Sigurjónsdóttir 1, Díana Kristín Sigmarsdóttir 1, Hafdís Shizuka Iura 1.
Mörk Gróttu: Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Ágústa Huld Gunnarsdóttir 3, Tinna Valgerður Gísladóttir 2, Anna Lára Davíðsdóttir 2, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 2, Rut Bernódusdóttir 2, Valgerður Helga Ísaksdóttir 1, Helga Guðrún Sigurðardóttir 1, Steinunn Guðjónsdóttir 1.