Frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands er væntanleg til Kristianstad til þess að standa á bak við íslenska landsliðið þegar það mætir ítalska landsliðinu í upphafsleik EM karla í handknattleik á morgun. Halla verður á meðal 3.000 Íslendinga á leiknum. Þetta herma heimildir handbolti.is.
Mikil eftirvænting er á meðal fólks í Kristianstad fyrir komu forseta Íslands enda þykir þeim mikil upphefð að fá þjóðhöfðingja í heimsókn. Sjálfboðaliðar sem voru við störf í vinnuaðstöðu fjölmiðlamanna í dag þóttu mikið til koma af væntanlegri heimsókn forseta, svo mikil tíðindi að haft var orði á þeim að fyrra bragðið. Er fólk glatt og þakklátt að vita af komu forseta Íslands. Þykir heimsóknin vera mikil upphefð fyrir bæinn svo ekki sé að tala um heiðurinn sem hlotnast að fá þjóðhöfðingja í heimsókn. Karl Gústaf konungur Svíþjóðar mun ekki vera tíður gestur í Kristianstad, svo dæmi sé tekið. Hvað þá á kappleik í handbolta.
Forseta Íslands til halds og trausts verða sendaherrahjón Íslands í Svíþjóð, Pétur Ásgeirsson og frú.
Eftir því sem næst verður komist verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra einnig á leiknum.




