„Það er bara frábært að taka með sér þriggja marka forskot í síðari leikinn gegn frábæru bosnísku liði sem leikur agaðan og einfaldan handbolta,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Hauka í viðtali við handbolta.is eftir sigurinn á bosníska meistaraliðinu HC Izvidac á Ásvöllum í dag, 30:27. Síðari viðureignin fer fram eftir viku í Bosníu.
Aron Rafn var öflugur í marki Hauka í dag, ekki síst í fyrri hálfleik þegar hann var með yfir 50% hlutfallsmarkvörslu. „Ég hefði gjarnan vilja að við hefðum nýtt þann kafla betur. Verst er að ég get ekki verið báðum megin á vellinum,“ sagði Aron Rafn og brosti í kampinn en Haukar voru aðeins með þriggja marka forskot eftir fyrri hálfleikinn, 15:12.
Ekkert kom á óvart
„Mér finnst við eiga meira inni. Þeir léku eins og við bjuggumst við eftir að hafa farið yfir leiki þeirra fyrir þessa viðureign. Ég veit ekki hverju þeir geta bætt við til að breyta leiknum verulega. Við förum brosandi til Bosníu í næstu viku og gerum okkar besta,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson hinn þrautreyndi markvörður Hauka í samtali við handbolta.is.
Lengra viðtal við Aron Rafn er í myndskeiði hér fyrir ofan.