Frakkar leika til úrslita á Evrópumótinu í handknattleik karla eftir að hafa lagt Svía eftir framlengda viðureign í Lanxess Arena í kvöld, 34:30. Leikurinn var hreint ótrúlegur. Elohim Prandi jafnaði metin fyrir Frakka, 27:27, með marki beint úr aukakasti eftir að leiktímanum var lokið. Nokkrum sekúndum áður voru dæmd skref á Jim Gottfridsson í síðustu sókn sænska landsliðsins þegar hann gat gulltryggt sænskan sigur.
Svíar voru slegnir út af laginu þegar komið var í framlengingu og voru Frakkar talsvert sterkari í henni. Frakkar leika í úrslitum á EM í fyrsta sinn í 10 ár eða frá frá því að þeir lögðu Dani í úrslitaleik.
Frakkar voru mikið sterkari í fyrri hálfleik gegn Svíum. Þeir komust yfir, 10:4, og voru enn yfir, 17:11, þegar fyrri hálfleikur var að baki. Sænska landsliðið tók öll völd á leikvellinum í síðari hálfleik og hafði jafnað metin eftir níu mínútur, 18:18.

Tveimur mínútum fyrir leikslok voru Svíar tveimur mörkum yfir, 26:24. Andreas Palicka varði allt hvað af tók í markinu, alls 15 skot, þar af þrjú vítaköst. Frakkar sýndu hinsvegar ótrúlega seiglu á síðustu mínútunum og jöfnunarmark Prandi verður lengi í minnum haft enda um sannkallað bylmingsskot að ræða vinstra megin við sænska varnarvegginn, í þverslá og í Palicka markvörð.
ELOHIM PRANDI SENDS US INTO EXTRA TIME 🤯🤯🤯#ehfeuro2024 #heretoplay #FRASWE pic.twitter.com/NJRaVdZyLc
— EHF EURO (@EHFEURO) January 26, 2024
Svíar unnu Evrópumeistaratitilinn fyrir tveimur árum.
Þjóðverjar og Danir mætast í hinni viðureign undanúrslitanna klukkan 19.30. Leikurinn verður sendur út á RÚV2.
Mörk Frakklands: Hugo Descat 8, Dika Mem 6, Nedim Remili 5, Yanis Lenne 4, Ludovic Fabregas 4, Elohim Prandi 3, Dyan Nahi 3, Kentin Mahé 1.
Varin skot: Samir Bellahcene 9, 27,2% – Remi Desbonnet 4, 40%.
Mörk Svíþjóðar: Fleix Claar 9, Max Darj 5, Hampus Wanne 5, Jim Gottfridsson 3, Jonathan Carlsbogard 3, Lukas Sandell 2, Albin Lagergren 1, Eric Johansson 1.
Varin skot: Andreas Palicka 15, 31,2%.