Leikmenn Fram 2 og Fjölnis eru komnir í jólaleyfi frá kappleikjum fram í janúar eftir að viðureign liðanna í Grill 66-deild kvenna lauk með þriggja marka sigri Framara í kvöld, 27:24. Leikið var í Lambhagahöllinni í Úlfarsársdal.
Fram var yfir í hálfleik, 12:11, og hafði frumkvæðið allan leikinn með örfáum undantekningum í fyrri hálfleik. Sjaldan var munurinn þó eins mikill og þegar upp var staðið.
Fram hefur átta stig eftir 11 leiki á leiktíðinni en Fjölnir er með sex stig og rekur lestina í átta liða deild. Afturelding er næst fyrir ofan með sjö stig.
Tvær viðureignir eru eftir í Grill 66-deild fyrir jólin. Báðar fara fram á fimmtudagskvöld. Víkingur sækir HK heim og Afturelding leikur á heimavelli við FH.
Mörk Fram 2: Sara Rún Gísladóttir 9, Birna Ósk Styrmisdóttir 5, Katla Kristín Hrafnkelsdóttir 3, Silja Katrín Gunnarsdóttir 3, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 3, Aníta Rut Eggertsdóttir 2, Margrét Á. Bjarnhéðinsdóttir 1, Natalía Jóna Jensdóttir 1.
Varin skot: Arna Sif Jónsdóttir 15, Andrea Líf Líndal 1.
Mörk Fjölnis: Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 5, Vera Pálsdóttir 4, Berglind Benediktsdóttir 3, Karólína Ósk Arndal Sigurlaugardóttir 3, Hildur Sóley Káradóttir 2, Sara Kristín Pedersen 2, Tinna Björg Jóhannsdóttir 2, Guðrún Maryam Rayadh 1, Matthildur Lóa Baldursdóttir 1, Signý Harðardóttir 1.
Varin skot: Signý Pála Pálsdóttir 11.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.





