Fram hefur staðfest að Sunna Jónsdóttir hafi gengið á ný til liðs við félagið. Sunna hyggst styðja við bakið á Framliðinu á komandi leiktíð í Olísdeildinni.
Tólf ár eru síðan Sunna lék síðast með Fram. Í millitíðinni hefur hún leikið í Noregi, Svíþjóð og síðast í sjö ár með ÍBV hvar hún var kjölfesta Eyjaliðsins.
Sunna er ein reynslumesta handknattleikskona landsins. Hún á að baki 99 landsleiki og þátttöku í stórmótum með landsliðinu auk þess að vera fyrirliði um árabil.
„Mér stendur það til boða ganga til liðs við Fram og vissulega er ég þakklát fyrir tækifæri að fá að vera þar á mínum forsendum og það er dýrmætt að fá vera hluti af hóp, sama í hvað mynd það er,“ sagði Sunna við handbolta.is í júlí þegar fregnaðist út um hugsanlega skipti hennar yfir í Fram eftir sjö góð ár í Vestmannaeyjum, eins og hún orðaði það.
Fyrsti leikur Fram í Olísdeildinni verður á laugardaginn gegn ÍBV í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum.
Sunna, sem er menntuð þroskaþjálfi, ætlar í vetur í samvinnu við HSÍ og íþróttafélagið Ösp að vera yfirþjálfari handboltaæfinga fyrir börn og ungmenni með fatlanir.