- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frammistaðan var óboðleg

Kári Kristján Kristjánsson leikmaður ÍBV. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Við tóku létt kast í hálfleik þar sem mönnum var þjappað hressilega saman og útkoman var flottur síðari hálfleikur. Lykilmenn okkar voru ískaldir í sóknarleiknum fyrri hálfleik, þar á meðal ég sem kom ekki við sögu. Rúnar var einnig slakur og fleiri er hægt að tiltaka,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson leikmaður ÍBV í samtali við handbolta.is í gærkvöldi eftir að ÍBV vann Stjörnuna öðru sinni í átta liða úrslitum, 27:23, og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum Olísdeildar í keppni um Íslandsmeistaratitilinn. ÍBV mætir FH í undanúrslitum. Fyrsta viðureignin verður fimmtudaginn 4. maí.


ÍBV var fimm mörkum undir, 15:10, eftir fyrri hálfleik í TM-höllinni í gærkvöld og átti svo sannarlega undir högg að sækja.

„Fyrri hálfleikur var hreinasta hörmung hjá okkur nánast hvert sem litið var. Við vorum eftir á öllum sviðum leiksins. Frammistaðan var óboðleg. Meðal annars skoruðum við ekki nema 10 mörk. Það er ár og dagur síðan ÍBV skoraði aðeins 10 mörk í fyrri hálfleik. Við sóttum alltaf inn á miðjuna þar sem við vorum auðveldlega stöðvaðir. Varnarleikurinn var allt í lagi,“ sagði Kári Kristján og bætti við að fyrri hálfleikurinn hafi verið áminning til leikmanna ÍBV vegna komandi leikja.


„Menn komu með reisn út í síðari hálfleik og það skilaði árangri. Það er hinsvegar leiðinlegt að þurfa að tyggja það ofan í fullorðna menn að mæta klárir til leiks.“

Skil þeirra leið mjög vel

Talsverð harka var í leiknum. Nokkuð sem leikmenn ÍBV eru e.t.v. ekki ókunnugir. Baráttugleði Stjörnumanna virtist hinsvegar koma Eyjamönnum í opna skjöldu í fyrri hálfleik. Kári sagði hernaðaráætlun Stjörnunnar hafi verið skiljanlega.

„Þeirra leið var að hleypa leiknum upp. Ég skil það fullkomlega. Ef ég hefði verið í þeirra sporum hefði ég farið líkt að. En þegar á leið kom í ljós að við erum einfaldlega með betra handboltalið og sýndum það þegar á reyndi,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson leikmaðurinn þrautreyndi hjá ÍBV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -