Amalie Frøland, markvörður ÍBV, er leikmaður 12. umferðar Olísdeildar kvenna í handknattleik að mati Handboltahallarinnar, vikulegs þáttar um handbolta sem er á dagskrá Símans á mánudagskvöldum. Frøland átti stórleik í marki ÍBV í 23:20 sigri á Haukum í Vestmannaeyjum á laugardag.
Norski markvörðurinn gerði sér lítið fyrir og varði 21 skot af 41 sem hún fékk á sig, sem gerir 51% hlutfallsmarkvörslu. Er hún leikmaður umferðarinnar í fyrsta sinn á tímabilinu.
Frøland er í markinu í úrvalsliði 12. umferðar ásamt liðsfélögum sínum Söndru Erlingsdóttur og Birnu Berg Haraldsdóttur.
Birna er í úrvalsliðinu í fimmta sinn á tímabilinu, Frøland í fjórða sinn og Sandra í þriðja sinn.
Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA/Þórs, er þjálfari umferðarinnar í þriðja sinn.
Úrvalslið 12. umferðar má sjá í heild sinni í myndskeiðinu hér fyrir ofan.



