Fyrri úrslitaleikur Vals og Olympiacos í Evrópubikarkeppninni í handknattleik verður í N1-höll Vals við Hlíðarenda laugardaginn 18. eða sunnudaginn 19. maí. Dregið var rétt í þessu en drættinum var flýtt um sólarhring. Síðari úrslitaleikurinn fer fram á heimavelli Olympiacos helgina eftir, laugardaginn 25. eða sunnudaginn 26. maí.
Samanlagður sigurvegari leikjanna vinnur Evrópubikarkeppnina.
Jón Halldórsson formaður handknattleiksdeildar Vals sagði við handbolta.is að undirreins verði farið í að ákveða hvort Valur ætli að veðja á laugardaginn eða sunnudaginn en sunnudaginn ber upp á hvítasunnudag. Eins segist Jón vænta svara frá forráðamönnum Olympiacos fljótlega hvorn daginn þeir velji síðari helgina. Valsmenn stefna á hópferð til Aþenu á síðari úrslitaleikinn.
Valur hefur á miðvikudaginn miðasölu á úrslitaleikinn á heimavelli. Búast má við að miðarnir verði rifnir út.