- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrst og fremst gott að mæta aftur út á völlinn

Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Hauka. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Ég var mjög spenntur fyrst eftir að ég kom í markið og gerði bara eitthvað, en eftir að ró komst á taugarnar þá tókst mér að klukka boltann nokkrum sinnum og komast í snertingu við leikinn,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Hauka sem mætti til leiks með félögum sínum á nýjan leik í gær, 11 mánuðum eftir að hafa fengið höfuðhögg æfingu. Höfuðhögg sem olli heilahristingi og hafði mjög mikil áhrif á daglegt líf hans svo mánuðum skipti. Þetta var þriðja alvarlega höfuðhöggið á rúmum þremur árum.

Fyrst og fremst góð tilfinning

„Fyrst og fremst var góð tilfinning að mæta út á völlinn aftur. Mjög skemmtilegt,“ sagði Aron Rafn sem stóð í marki Hauka í nærri 45 mínútur í jafntefli við Stjörnuna, 33:33, á Ásvöllum í 15. umferð Olísdeildar karla. Hann varði níu skot, þar af eitt vítakast.

„Staðan er alls ekkert frábær hjá mér“

Hægur og þreyttur

„Fyrsta æfing í markinu var á milli jóla og nýárs og sú næsta um miðjan janúar. Enda er formið ekki orðið mjög gott eins og þú sást ef til vill. Ég var frekar hægur og þreyttur þegar á leikinn leið. Allt stendur til bóta með fleiri æfingum og leikjum. Aðalatriðið er hafa náð að stimpla sig inn á nýjan leik. Fyrsti leikur búinn. Nú er bara áfram gakk.“

Sem betur fer ekki fast

Aron Rafn hafði ekki lengi verið í marki Hauka í leiknum í gær þegar hann fékk boltann í höfuðið eftir vítakast Stjörnumannsins Starra Friðrikssonar. „Það var smá ónákvæmni hjá Starra vini mínum. Sem betur fer var skotið ekki fast. Hann rétt “tsippaði” boltanum í andlitið á mér,“ sagði Aron Rafn og svarar neitandi spurður hvort honum hafi ekki brugðið.

Ekki hræddur við boltann

„Kannski er það vegna þess að ég hef aldrei orðið hræddur við boltann þótt ég hafi nokkrum sinnum fengið hann í höfuðið. Væri ég hræddur við boltann þá væri ég hættur í handbolta. Ég gerði mér grein fyrir því þegar ég byrjaði aftur að viðbúið væri að ég fengi boltann einhverntímann í höfuðið. Ég vissi að ég myndi ekki sleppa við það þótt ég hafi ekki alveg reiknað að gerðist strax í fyrsta leik,“ sagði Aron Rafn sem leið vel í dag, daginn eftir leikinn. “Ég er bara eins góður og get verið.“

Á að vera hluti af búnaði

Aron lék og æfir með svamphjálm á höfðinu til að draga úr hættu af alvarlegum höggum. Hann segir að það eigi að skylda markverði til þess að vera hjálm af þessu tagi eða svamphring eins og nokkrir leika með. Aron Rafn segir hjálminn venjast vel. Gallinn sé að hann svitni mjög undan honum.


„Það mættu vera tvo til þrjú loftgöt á honum. Maður svitnar rosalega. Að öðru leyti er ég mjög ánægður með hjálminn og vera einn fyrsti markvörðurinn hér á landi til þess að leika með hann. Mér finnst það eigi nánast að skylda markverði til þess að vera með hjálm eða hring, hvort sem þeir hafa orðið fyrir höfuðhöggi eða ekki. Vonandi fylgja einhverjir í kjölfarið á mér í þessum efnum.“

Reiknar ekki með að verða með í vetur

Hefur gengið vel

Aron byrjaði aftur að hreyfa sig í upphafi vetrar og þá með léttum æfingum undir litlu álagi. „Þegar ég hafði verið stabíll í þrjá til fjóra mánuði áður ég fór að æfa af meiri þunga. Þá ákvað ég að stinga mér aftur út í laugina. Þegar kom fram í miðjan desember þá fór ég auka álagið við æfingarnar og reyna verulega á líkamann aftur. Mér hefur gengið vel.

Var í mjög góðum höndum

Allt bataferlið var ég í mjög góðum höndum hjá Ella og Ástu hjá Sjúkraþjálfun Íslands. Ég var búinn að taka öll próf hjá þeim áður ég fékk grænt ljós hjá þeim. Næstu skref er að bæta jafnt og þétt við og bæta meðal annars leikformið,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -