Hollenska landsliðið, sem verður fyrsti andstæðingur íslenska landsliðsins á EM á föstudaginn eftir viku, vann stórsigur á rúmenska landsliðinu á fjögurra liða æfingamóti í Randers á Jótlandi í kvöld, 41:25. Yfirburðir hollenska liðsins voru miklir í leiknum frá upphafi til enda. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 22:14.
Rúmenska landsliðið tekur einnig þátt í EM sem hefst undir lok næstu viku. Það sá aldrei til sólar í Randers að þessu sinni. Skarð er vissulega fyrir skildi í liðinu eftir að Cristina Neagu ákvað að hætta að leika með landsliðinu eftir að hafa verið kjölfesta þess í hálfan annan áratug.
Síðari leikur mótsins í kvöld verður á milli frændþjóðanna, Danmerkur og Noregs. Þórir Hergeirsson verður að vanda við stjórnvölin hjá norska landsliðinu í síðasta æfingamótinu með liðið áður en hann hættir að loknu Evrópumótinu.
Mótinu verður framhaldið á laugardaginn. Þá mæta Hollendingar norska landsliðinu. Daginn eftir eigast við Danir og Hollendingar.