Eftir 14 ára fjarveru er Ciudad Real aftur í efstu deild spænska handknattleiksins. Félagið var áberandi á fyrsta áratug aldarinnar og varð fimm sinnum spænskur meistari og sigurlið Meistaradeildar Evrópu í þrígang auk tvennra silfurverðlauna.
Margir fremstu handknattleiksmenn þess tíma léku með Ciudad Real, þar á meðal Ólafur Stefánsson. Talant Dujshebaev var lengst af þjálfari og allt virtist leika í lyndi. Einn daginn voru hinsvegar sögulok, sjóðir eigandans tæmdust og spilaborgin hrundi. Félagið rann inn í Atlético Madrid.
Madrídarliðið fór sömu leið, þ.e. í gjaldþrot nokkrum árum síðar.
Áhugasamir handknattleiksunnendur spænska smábæjarins vildu ekki leggja árar í bát og stofnuðu nýtt félag undir heitinu Balonmano Caserío Ciudad Real. Félagið hefur jafnt og þétt verið byggt upp stig af stigi og nú er svo komið að það leikur í efstu deild karla á tímabilinu sem hefst í september.
Santi Urdiales, fyrrverandi landsliðsmaður, hefur stýrt félaginu í áratug.
Balonmano Caserío Ciudad Real er í dag meira en meistaraflokkslið í karlaflokki. Rúmlega 300 börn og unglingar æfa með yngri flokkunum með það að markmiði að þegar fram líða stundir verði félagið sjálfbært að mestu með leikmenn á næstu árum og vinni samfélaginu í bænum gagn um leið. Forðast á að brenna sig á sama soðinu tvisvar.