Geir Hallsteinsson, hinn fjölhæfi handknattleiksmaður úr FH, var sá handknattleiksmaður sem opnaði leið íslenskra handknattleiksmanna til Vestur-Þýskalands 1973, en síðan þá hafa vel yfir 100 leikmenn leikið í Þýskalandi og 88 leikmenn hafa leikið í „Bundesligunni“ eftir að hætt var að leika í tveimur riðlum, norður og suður, og byrjað var að leika í einum landsriðli keppnistímabilið 1977-1978. Hér segum við frá komu Geirs til Göppingen og hvernig hann plægði akurinn og sáði í hann þannig að íslenskir handknattleiksmenn urðu eftirsóttir. Það munaði ekki miklu, að Geir hefði aldrei farið til Þýskalands, þar sem hann ætlaði sér að leika í Danmörku og var hann búinn að gera tveggja ára samning við Kaupmannahafnarliðið Stadion frá Bröndby.
Kanadískir ísknattleiksmenn stöðvuðu Geir
Danska blaðið B.T. sagði frá því í maí 1973 að Geir Hallsteinsson yrði ekki gjaldgengur með meistaraliðinu Stadion í Kaupmannahöfn og var fyrirsögnin: „Besti handknattleiksmaður Norðurlanda útilokaður frá 1. deild!“
Það voru kanadískir ísknattleiksmenn sem komu í veg fyrir að Geir léki með Stadion. Íþróttasamband Danmerkur átti stóran þátt í því, með því að breyta reglum um keppnisleyfi fyrir erlenda íþróttamenn. Til að koma í veg fyrir mikla aðsókn ísknattleiksmanna frá Kanada, var reglum breytt þannig að til þess að geta leikið með liðum í efstu deild, yrðu leikmenn að vera búsettir í Danmörku í minnst sex mánuði.
Stadion fékk ekki undanþágu fyrir Geir, þannig að samningurinn var ógiltur. Geir hafði áður fengið boð frá Þýskalandi, en tungumálið hindraði það að Geir vildi fara þangað með fjölskyldu sína. Geir skipti síðan um skoðun, ákvað að gerast leikmaður með Göppingen, sem hafði níu sinnum orðið Þýskalandsmeistari, síðast 1970 og 1972.
Geir hélt til Göppingen ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Logadóttur og tveggja ára syni, Arnari, í lok júlí.
Himnasending
Geir vakti strax hrifningu fyrir leik sinn og sögðu forráðamenn Göppingen að Geir væri rétti maðurinn til að lyfta liðinu upp á hærra plan. „Hann er okkur sendur af himnum ofan”.
Stórblaðið Bild sagði að Geir hafi skotið sig inn í hjörtu áhangenda liðsins: „In die herzen geschossen!“
Geir fór á kostum í fyrsta leik sínum; æfingaleik gegn neðrideildarliði. Hann skoraði fyrsta mark sitt eftir aðeins 10 sek. og er upp var staðið voru mörk hans 12! Stuðningsmenn Göppingen kunnu að meta byrjun Geirs og uppselt var á heimaleik liðsins.
Hansi braut tennur í Geir
Það má með sanni segja að sjálfur Hansi Schmidt hafi „vígt“ Geir inn í þýska boltann, þegar Göppingen og Gummersbach gerðu jafntefli í æfingaleik, 14:14. Hamagangur var mikill á milli þessara tveggja meistaraliða og hart tekist á. Geir og Hansi lentu í samstuði, sem varð til þess að tennur í Geir brotnuðu.
Hver er Hansi Schmidt?
Það er rétt að rifja upp fyrir lesendum hver Hans-Günther Schmidt er. Hann er tvímælalaust einn besti handknattleiksmaður í sögu þýsku „Bundesligunnar.“
Hansi fæddist í Rúmeníu 24. september 1942, varð meistari með liði hersins, Steaua Búkarest, 1963. Þegar hann var í keppnisferð með landsliði Rúmeníu í Þýskalandi, þar sem liðið tók þátt í fjögurra liða móti í Dortmund, lét hann sig hverfa. Það vakti geysilega athygli, þar sem Hansi sem var 21 árs og talinn einn efnilegasti handknattleiksmaður heims.
Sá sem skipulagði flóttann var „faðir Gummersbach“ Eugen Haas. Þegar í ljós kom að einn leikmann (Hansi) vantaði í hópinn, varð uppi mikil örvænting; menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Fararstjórar leituðu til lögreglunnar og þrátt fyrir umfangsmikla leit sást hvorki tangur né tetur af strák. Var eins og jörðin hefði gleypt hann. Þegar leitin stóð hæst í Dortmund, var Hans í góðu yfirlæti á hóteli í Hamborg. Með honum var Haas, ásamt tveimur stjórnarmönnum Gummersbach, en þeir höfðu beðið átekta í bifreið fyrir utan hótel í Dortmund, tilbúnir að koma Hansa undan og fara með hann til Hamborgar. Hansi hafði sett sig í samband við Eugen Haas í gegnum einn leikmann Gummersbach sem lék með v-þýska landsliðinu. Þegar Rúmenarnir yfirgáfu Vestur-Þýskaland, beið Hansi ekki boðanna og fór á næstu lögreglustöð og baðst hælis sem pólitískur flóttamaður.
Þar sem hann var meðlimur hersins var hann dæmdur til dauða í Rúmeníu fyrir liðhlaup.
Þremur árum eftir að Hansi kom til Gummersbach varð félagið vestur-þýskur meistari í fyrsta skipti í sögunni, 1966. Með Hansa innanborðs var Gummersbach eitt besta lið sögunnar.
Hansi varð sjö sinnum V-Þýskalandsmeistari á árunum 1966-1976, fjórum sinnum Evrópumeistari. Hann varð sjö sinnum markahæsti leikmaðurinn í „Bundesligunni“ – norðurdeild; skoraði 1.066 mörk í 173 leikjum. Hann lék 18 landsleiki fyrir Rúmeníu, en 98 leiki fyrir V-Þýskaland; skoraði 484 mörk.
Æsti upp Hafnfirðinga í Laugardalshöllinni!
Hansi Schmidt (1.94 m) kom nokkrum sinnum til Íslands með þýska landsliðinu og Gummersbach. Hann var óviðráðanlegur í landsleik í Laugardalshöllinni 1966, er hann skoraði 9 mörk í stórsigri Þjóðverja, 26:19. Varnarmenn Íslands voru eins og smábörn í höndum Hansa. Geir skoraði tvö mörk.
* Gummersbach kom til Íslands í lok mars 1969 á leið sinni í keppnisferð til Bandaríkjanna og Kanada. Liðið lék gegn Reykjavíkurúrvali, 19:12, og síðan gegn Hafnarfjarðarúrvali, 18:15. Leikurinn gegn Hafnarfjarðarúrvali var sögulegur vegna þess að Þjóðverjarnir höguðu sér dólgslega í leiknum og léku ruddalega.
Dagblaðið Tíminn sagði að potturinn og pannan í leik og ólátum liðsins var risinn Hans Schmidt, einn allra besti handknattleiksmaður sem sést hefur á fjölum Laugardalshallarinnar. „Sterkur sem naut, en engu að síður fisléttur, virtust honum allir vegir færir. Hann virtist geta skorað hvenær sem hann vildi. Auk þess átti hann glæsilegar línusendingar. En hvernig hann barði á hafnfirsku leikmönnunum var ljótt að sjá og framkoma hans í garð dómara var ekki til fyrirmyndar. En allan tímann hafði maður það á tilfinningunni, að þetta væri fyrirfram ákveðið og gert í ákveðnum tilgangi – til að reita mótherjann til reiði. Það tókst honum líka. Þarna var yfirburðarmaður á ferð, ósvífinn að vísu, en nálgaðist að vera skemmtilega ósvífinn af því að það var svo greinilegt, að ósvífnin var tilbúningur og tæki til að brjóta mótherjana niður andlega – og ekki síður líkamlega,“ skrifaði Alfreð Þorsteinsson, íþróttafréttamaður.
Schmidt sagði eftir leikinn að þessi framkoma hafi verið með ráðum gerðt; til að æsa upp mótherjanna, því að æstir menn gera marga feila. „Þar með er ekki hægt að segja að þetta sé skemmtileg „taktík“, sagði Schmidt og hló.
Geir kann allt!
Snúum okkur aftur að Geir og Göppingen. Hann fékk mikið lof fyrir leiki sína og sagði blaðið Göppinger Kreisnachrichten eftir einn leikinn: „Geir er hafinn yfir alla gagnrýni. Hann kann allt, og getur allt með knöttinn.“
Frammistaða Geirs varð til þess að mörg þýsk lið fóru að sýna áhuga á að leita til Íslands eftir leikmönnum, til að styrkja lið sín og hvöttu þýsku blöðin til þess. Sögðu að tækifærið fyrir þýsku liðin sé, þegar Íslendingarnir koma til Austur-Þýzkalands í heimsmeistarakeppnina 1974.
Stórsigur Íslands á Frakklandi, 28:15, í undankeppni HM í A-Þýskalandi 1974, vakti mikla athygli og að tveir leikmenn hafi gert bróðurpartinn af mörkunum, Geir 10 og Axel Axelsson 13!
„Liebling eða Liebevoll“ uppáhaldið, var nafnið sem Geir var farinn að ganga undir í Göppingen. Þá mátti sjá fyrirsögnina: „Göppinger Jubel über den mann aus Island.“ Göppingen gleðst yfir Íslendingnum.
Geir var dáður leikmaður, fjölhæfur og kappsmikill. Jafnvel „sprengjuvarpan“ Hansi Schmidt féll í skugga hans.
Geir sá fjölhæfasti
Það þarf ekki þýsk blöð til að segja okkur Íslendingum um hæfileikana sem Geir bjó yfir. „Ég hef leikið með mörgum snjöllum leikmönnum. Ég tel Geir hafi verið sá fjölhæfasta sem ég hef leikið með,“ sagði Sigurður Einarsson, línumaður hjá Fram og landsliðinu, í bókinni „Strákarnir okkar“.
„Geir hafði yfir að ráða ýmsum tegundum af skotum og þá var hann með frábær gegnumbrot, en það voru ekki margir leikmenn sem réðu yfir þeim eiginleikum að geta platað varnarmenn með skotsveiflu og vaðið síðan í gegn. Geir var listamaður og þekktur víða um heim. Geir gat verið hreint óstöðvandi. Hann gat skorað með undirskotum, stökkskotum, gegnumbrotum og átti frábæra línusendingar.“
Smáguttar skotfastir!
Fréttir höfðu borist frá Íslandi, að smáguttar væru svo skotfastir, að þeir væru óhræddir við að skjóta eldri og reyndari skotmenn niður og var sagt að sá tími væri að renna upp að fleiri lið fari með „trollið“ á Íslandsmið, til að fiska eftir leikmönnum. Þannig sagði til dæmis eitt blað í Norður-Þýskalandi, þar sem annar riðill Bundesligukeppninnar fór fram:
„Það er eftirtektarvert að í suðurriðlinum leikur ungur Íslendingur, Hallsteinsson að nafni, með Göppingen. Hallsteinsson hefur þegar sýnt, að hann stendur flestum þýskum handknattleiksmönnum framar. Hann hefur óvenjulega knattmeðferð og er geysilega skotharður. Það er fyrst og fremst hann sem drífur Göppingenliðið áfram, en flestir bjuggust við því að liðið yrði í öldudal í vetur. En Hallsteinsson er ekki eini góði handknattleiksmaðurinn á Íslandi. Árangur íslenzka landsliðsins á undanförnum árum hefur skipað Íslendingum í röð bestu handknattleiksþjóða heims. Það væri því athugandi fyrir fleiri þýsk lið að reyna að ná Íslendingum til sín.“
Göppingen í undanúrslit
Keppnisfyrirkomulagið í Vestur-Þýskalandi var þannig að leikið var í tveimur riðlum í „Bundesligunni“ – norður og suður. Keppnistímabilið 1973-1994, voru Wellinghofen (30 stig) og Gummersbach (28) efst í norðurriðlinum og komust í undanúrslit, þar sem þau léku við efstu liðin í suðurriðlinum; Hüttenberg (25) og Göppingen (22).
Geir og samherjar hans töpuðu báðum leikjum sínum við Wellinghofen, 17:24 úti og 14:15 heima. Gummersbach vann Hüttenberg heima 15:10 og úti 18:16.
Gummersbach varð síðan þýskur meistari 1974 með því að leggja Wellinghofen að velli 19:14 í úrslitaleiknum í Dortmunder Westfalenhalle.
Axel mætir til leiks
Eftir keppnistímabilið hafði Geir hug á að fara heim og taka við þjálfun FH-liðsins ásamt Birgi Björnssyni. Ekkert varð því, hann ákvað að vera áfram. Þá kom annar Íslendingur til leiks í „Bundesligunni“ – Axel Axelsson, Fram, og síðan Ólafur H. Jónsson, Val, sem léku með Dankersen. Aðrir Íslendingar sem koma við sögu í næsta pistli eru Víkingarnir Einar Magnússon og Guðjón Magnússon, bræðurnir úr FH, Gunnar og Ólafur Einarssynir, Ágúst Svavarsson, ÍR/Drott, Björgvin Björgvinsson, Fram/Víkingi og Þorbergur Aðalsteinsson, Víkingi.
Auf Wiedersehn
Fyrri pistlar Sigmundar um brautryðjendur:
Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi
„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“