„Mér hefur gengið mjög vel á keppnistímabilinu. Hluti að því er kannski að ég hef fengið stærra hlutverk í vinstri skyttunni í sóknarleiknum og náð mér vel á strik. Eins hef ég líka leikið í hægri skyttunni vegna meiðsla samherja minna,“ sagði Daníel Þór Ingason landsliðsmaður og leikmaður toppliðs þýsku 2. deildarinnar, Balingen-Weilstetten, þegar handbolti.is hitti hann að máli fyrrakvöld, fyrir æfingu landsliðsins í íþróttahúsinu í Safamýri.
Daníel Þór hefur farið á kostum með Balingen það sem af er leiktíðar og skorað grimmt. Hann var m.a. í liði sjöttu umferðar deildarinnar sem leikin var um síðustu helgi. Daníel skoraði átta mörk í níu skotum í sigurleik á Dormagen og var einnig umsvifamikill í vörninni og var fyrir vikið vísað í tvígang af leikvelli.
Allt jafnir leikir
„Andstæðingarnir eru vissulega eitthvað veikari en í fyrstu deildinni á síðasta keppnistímabili. Engu að síður hefur verið um hörkuleiki hjá okkur að ræða fram til þessa sem sést best á því að við höfum varla unnið leik með meira en þriggja marka mun. Í sumum leikjum hafa úrslitin ekki ráðist fyrr en á síðustu sekúndum.
Mér gengur vel og er mjög ánægður,“ sagði Daníel Þór sem er á sínu öðru tímabili í Þýskalandi eftir hafa flutt frá Danmörku sumarið 2021 að lokinni veru hjá Ribe-Esbjerg.
Daníel Þór Ingason er 26 ára gamall handknattleiksmaður með þýska 2. deildarliðinu Balingen-Weilstetten. Hann gekk til liðs við félagið sumarið 2021 en svo merkilega vill til að félagið tilkynnti um komu hans 27. apríl 2021, sama dag og Ísland og Ísrael áttust við í fyrra skiptið í undankeppni EM 2022. Daníel var þá með íslenska landsliðinu í Tel Aviv. Daníel Þór lék með meistaraflokksliðum Vals og síðar Hauka frá 2013 til 2019 að hann samdi við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg. Á vesturströnd Jótlands var Daníel Þór í tvö ár. Daníel Þór lék sinn fyrsta landsleik árið 2017 og var með á fyrsta stórmótinu tveimur árum síðar á HM sem haldið var í Danmörku og Þýskalandi. Alls eru landsleikirnir orðnir 37 og mörkin 11. Faðir Daníels Þór, Ingi Rafn lék einnig með landsliðinu á sínum tíma svo og afi Daníels, Jón Breiðfjörð markvörður.
Nær betur saman með samherjunum
Daníel Þór segir engan vafa leika á að það eigi sinn þátt í góðu gengi sínu að hann er kominn betur inn í samfélagið og ekki síst tungumálið en þýska er fyrst og fremst töluð í leikjum. „Ég næ betur saman með samherjunum,” sagði Daníel og bætir við að ekki sé heldur verra að geta loksins búið með unnustu sinni, Söndru Erlingsdóttur landsliðskonu í handknattleik og leikmanni Metzingen. Hún flutti til Þýskalands í sumar frá Danmörku.
„Það er frábært að vera með henni eftir nærri þriggja ára fjarbúð,” sagði Daníel Þór og brosir í kampinn.
Þriðja verkefnið í röð
Daníel Þór hefur verið með í síðustu verkefnum landsliðsins, EM í janúar og í leikjunum við Austurríki í apríl.
„Auðvitað vonast maður alltaf eftir að fá að spila sem mest. En fyrst og fremst þá mæti ég á æfingarnar og geri mitt besta með von um að fá að spila sem mest þegar út í leikina er komið. Maður verður bara að nýta tækifærin þegar þau gefast og sýna hvað í manni býr,” sagði Daníel Þór Ingason, landsliðsmaður og leikmaður þýska liðsins Balingen-Weilstetten í samtali við handbolta.is.
Leikur Íslands og Ísrael hefst klukkan 19.45 á Ásvöllum í kvöld. Fylgst verður með leiknum í textalýsingu á handbolti.is en einnig verður bein útsending á RÚV2.
Hér fyrir neðan er grein sem Sigmundur Ó. Steinarsson blaðamaður skrifaði í janúar þar sem sagt er frá feðgunum, Daníel Þór, Inga Rafni og Jóni Breiðfjörð.