- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gerðum út um leikinn strax í fyrri hálfleik

Birgir Steinn Jónsson leikmaður Aftureldingar skoraði sex mörk í kvöld. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -


„Fyrri hálfleikur var frábær og þá gerðum við út um leikinn ef svo má segja,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari karlaliðs Aftureldingar við handbolta.is í kvöld eftir 11 marka sigur á ÍBV að Varmá í 7. umferð Olísdeildar karla í handknattleik, 38:27. Aftureldingarliðið var 10 mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 19:9.

Í raun var staðan 13:4 þegar 20 mínútur voru liðnar og tveir Eyjamenn þá farnir af leikvelli með rautt spjald. Fyrst Kristófer Ísak Bárðarson og nokkrum mínútum síðar Sigtryggur Daði Rúnarsson. Eyjamenn voru sérlega ósáttir við rauða spjaldið sem Kristófer fékk.

Heilsteyptur fyrri hálfleikur

„Við mættum klárir í slaginn. Varnarleikurinn var þéttur og góður, allt small saman, markvarsla og vörn og mörk eftir hraðaupphlaup. Heilsteyptur fyrri hálfleikur,“ sagði Gunnar ennfremur en með sigrinum settist Afturelding í efsta sæti deildarinnar á nýjan leik, stigi fyrir ofan FH.

ÍBV-liðið byrjaði vel í síðari hálfleik og minnkaði muninn í fimm mörk, 20:15, og átti þess kost að skora 16. markið úr vítakasti. Einar Baldvin Baldvinsson markvörður Aftureldingar varði vítakastið og sló áðeins vopnin úr höndum Eyjamanna. Leiðir skildu aftur.

„Það er ákveðin kúnst að stilla sig inn á að byrja síðari hálfleik með 10 marka forskot. Eyjamenn byrjuðu með áhlaupi en okkur tókst að standast það að mestu og snúa vörn í sókn þegar á leið. Einar varði mikilvægt víti sem hjálpaði okkur verulega við að snúa leiknum á ný okkur í hag,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar ennfremur.

Rauð spjöld og þrír meiddir

Auk tveggja rauðra spjalda sem áður er getið þá söknuðu Eyjamenn þriggja öflugra leikmanna sem eru meiddir, þeirra Dags Arnarssonar, Ísaks Rafnssonar og Ívars Bessa Viðarssonar. Án þeirra þriggja auk fjarveru Sigtryggs og Kristófers þá var róðurinn eðlilega þungur hjá ÍBV-liðinu. Engu að síður þá voru fyrstu 10 til 15 mínuturnar ekki viðunandi hjá Eyjaliðinu.

Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 7/1, Ihor Kopyshynskyi 6, Birgir Steinn Jónsson 5, Hallur Arason 5, Árni Bragi Eyjólfsson 4/1, Ævar Smári Gunnarsson 4, Harri Halldórsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Daníel Bæring Grétarsson 1, Haukur Guðmundsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 12/2, 38,7% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 1, 12,5%.

Mörk ÍBV: Andri Erlingsson 4, Marino Gabrieri 4, Gauti Gunnarsson 4, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3/1, Andrés Marel Sigurðsson 3, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2/1, Daniel Esteves Vieira 2, Nökkvi Snær Óðinsson 1, Petar Jokanovic 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 8/4, 21,1% – Pavel Miskevich 0.

Tölfræði HBStatz
.

Staðan og næstu leikur í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -