- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Getum tryggt okkur þriðja sætið í riðlinum

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals og Arnór Snær Óskarsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Leikur okkar var frábær og stemningin í húsinu alveg geggjuð. Mikilvægi sigursins er síðan mjög mikið í þessum ótrúlega jafna riðli sem við erum í. Enginn annar riðill keppninnar er eins jafn og þessi,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals við handbolta.is í gærkvöld eftir sigurinn góða og örugga, 35:29, á spænska liðinu TM Benidorm í áttundu umferð Evrópudeildarinnar í Origohöllinni í gærkvöld.


Valur er í þriðja sæti B-riðils eftir leikina sem fram fóru í gærkvöld og eru þar með í von um að hafna í þriðja eða fjórða sæti riðilsins. Fjögur þau efstu taka sæti í 16-liða úrslitum. Flensburg og Ystads virðast eiga tvö efstu sætin næsta vís.

Ánægður með stöðuna

„Við erum bara áfram með í baráttunni um sæti en megum ekkert misstíga okkur. Ég er bara mjög ánægður með að vera í þeirri stöðu að eiga möguleika á að komast áfram með sigri á PAUC þriðjudaginn á heimavelli. Við erum í forréttindastöðu, ef svo má segja,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.

Getum náð þriðja sæti

Valur hefur nú betri innbyrðisstöðu gegn FTC og Benidorm komi til þess að liðin verði jöfn að stigum þegar upp verður staðið. „Eftir úrslit kvöldsins þá erum við komnir í þá stöðu að geta skilið PAUC eftir fyrir aftan okkur ef við vinnum þá í Origohöllinni á þriðjudaginn,“ sagði Snorri Steinn sem sér fram á leik við Stjörnuna í átta liða úrslitum Poweradebikarsins á föstudaginn áður en að leiknum við PAUC kemur á þriðjudaginn.


Athygli vakti í leiknum í gærkvöld sá viðsnúningur sem varð á leiknum upp úr miðjum fyrri hálfleik. Valur var 8:4 undir þegar tekið var leikhlé og farið yfir stöðuna. Ekki liðu margar mínútur eftir leikhléið þangað til að Valsmenn voru komnir yfir.

Engin töfralausn

„Það er nú ekki eins og ég hafi átt einhverja töfralausn sem breytti stöðunni,“ sagði Snorri spurður hvað átti sér stað.

„Við fórum stuttlega yfir málin. Varnarleikurinn hafði verið flatur, hverju sem var um að kenna, kannski var spenna í mönnum. Einnig gekk sóknarleikurinn ekki sem skildi og góð færi höfðu farið forgörðum.


Eftir hléið þá stóku menn skref fram á við, allir sem einn. Vörnin batnaði, Bjöggi varði hvert skotið á fætur öðru, við skoruðum tvö eða þrjú mörk í röð og stemningin í húsinu jókst. Segja að má að allt hafi lagst á eitt eftir leikhléið. Eitt leiddi af öðru og innan skamms var leikurinn orðinn jafn og við síðan komnir yfir áður en hálfleikurinn var úti,“ sagði Snorri Steinn um viðsnúninginn sem varð á leiknum í fyrri hálfleik upp úr 15. mínútu.


Hægt er að kaupa miða á leik Vals og PAUC á þriðjudaginn hjá Tix.is með því einu að smella hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -