- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli, Janus og Ómar þýskir bikarmeistarar í fyrsta sinn

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður SC Magdeburg. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Magdeburg rótburstaði MT Melsungen í úrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik karla í Lanxess Arena í Köln í dag, 30:19, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11. Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon eru þar með þýskir bikarmeistarar í fyrsta sinn. Íslendingar hafa verið í sigurliði bikarkeppninnar í þrjú af síðustu fjórum árum.

Annan daginn í röð átti spænski markvörðurinn Sergey Hernandez stórleik í marki Magdeburg en hann tók við sem aðalmarkvörður fyrir helgina eftir að Nikolas Porter féll á lyfjaprófi. Hernandez varði 17 skot, 47%, í úrslitaleiknum.

Reyndust leikmenn Melsungen vera ráðþrota gegn Spánverjanum sem hefur ekki þótt vera góður fram til þessa á keppnistímabilinu.

Íslendingarnir létu talsvert til sína taka í leiknum. Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk, þar af þrjú úr vítaköstum og var næst markahæstur hjá Magdeburg. Lukas Mertens skoraði sjö mörk. Ómar átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli.

Gísli Þorgeir Kristjánsson sem lék als oddi í gær skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum og átti þrjár stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu.

Elvar Örn Jónsson var einn af þeim leikmönnum Melsungen sem átti í vandræðum með Hernandez markvörð. Elvar Örn skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar. Einnig var honum vikið einu sinni af leikvelli. Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark.

Timo Kastening var markahæstur hjá Melsungen með fimm mörk.

Fyrr í dag hreppti Flensburg bronsverðlaun í bikarkeppninni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -