Eftir að hafa setið á bekknum í tveimur leikjum í röð eftir að hafa jafnað sig af slæmum axlarmeiðslum kom Gísli Þorgeir Kristjánsson í fyrsta sinn almennilega við sögu í leik með SC Magdeburg í gærkvöld þegar liðið vann HSG Wetzlar, 39:31, á heimavelli í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. Gísli Þorgeir skoraði eitt mark og og átti eina stoðsendingu auk annars markskots sem missti marks á þeim tíma sem hann tók þátt.
Gísli Þorgeir er vitanlega brattur vegna skjóts og góðs bata og sagði síðast í samtali við Stöð2/Vísir gera 100% ráð fyrir að verða valinn með í EM-hópinn.
Snorri Steinn Guðjónsson mun tilkynna um EM hópinn á mánudaginn, eftir því sem handbolti.is kemst næst.
Ómar og Janus frábærir
Ómar Ingi Magnússon átti stórleik með Magdeburg í sigurleiknum á Wetzlar í gær. Hann skoraði 10 mörk, sex þeirra úr vítaköstum auk þess að eiga fjórar stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Ekki er síður gleðilegt að vita hversu vel Ómar Ingi hefur jafnað sig af meiðslum sem hrjáðu hann fyrri hluta ársins.
Teitur Örn lék afar vel
Teitur Örn Einarsson lék afar vel fyrir Flensburg þegar liðið tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar í gær með átta marka sigri á Bergischer HC í Flens-Arena, 37:29. Selfyssingurinn skoraði fimm mörk í sex skotum auk fjögurra stoðsendinga.
Arnór Þór Gunnarsson er aðstoðarþjálfari Bergischer.
Elliði Snær skoraði þrjú
Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach unnu Göppingen, 33:28, á heimavelli. Nýbakaður faðir, Elliði Snær Viðarsson, skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu fyrir Gummersbach.
Bikarmeistararnir unnu
Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason fóru einnig áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar með ríkjandi bikarmeisturum, Rhein-Neckar Löwen, eftir öruggan sigur á Tusem Essen, 33:24. Arnór Snær skoraði eitt mark.
Dregið hefur verið í átta liða úrslit: TuS N-Lübbecke - MT Melsungen. SC Magdeburg - Rhein-Neckar Löwen. Füchse Berlin - Gummersbach. HSV Hamburg - Flensburg. - Leikirnir eiga að fara fram 2. febrúar. - Úrslitahelgi bikarkeppninnar verður 13. og 14. apríl í Köln.
Hákon Daði úr leik
Hákon Daði Styrmisson og félagar í Eintracht Hagen féllu úr leik með tapi á heimavelli fyrir TuS N-Lübbecke, 36:28. Hákoni tókst ekki að skora í leiknum.
Í fyrrakvöld komst MT Melsungen m.a. áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar eins og handbolti.is sagði frá.