- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir fær tækifæri til að fagna!

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Það verður án efa mikil stemning í íþróttahöllinni í Magdeburg og á ráðhústorgi bæjarins á morgun, þegar leikmenn Magdeburgarliðsins taka á móti Þýskalandsskildinum – í fyrsta skipti í 21 ár, eða síðan 2001 er Ólafur Stefánsson og Alfreð Gíslason voru í herbúðum stórliðsins úr austrinu! Tveir Íslendingar taka þátt í fögnuðinum af miklum krafti; Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon, sem eru lykilmenn í Magdeburgarliðinu. Gísli Þorgeir hefur einu sinni áður orðið Þýskalandsmeistari; með Kiel, en Ómar Ingi fagnar sínum fyrsta meistaratitli. Verður tólfti Íslendingurinn sem gerir það. 


Báðir taka þeir á móti Þýskalandsskildinum góða í fyrsta skipti. Gísli Þorgeir var ekki viðstaddur þegar leikmenn Kiel tóku á móti skildinum 2020.

Ómar Ingi Magnússon, leikmaður SC Magdeburg og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Mikil markakóngsbarátta

 Það verður boðið upp á spennu í Magdeburg á morgun, þegar Magdeburg mætir Rhein-Neckar Löwen. Spurningin er hvort að Ómar Ingi verði markakóngur í „Bundesligunni“ annað árið í röð.  Síðastur til að verða markakóngur tvö ár í röð var Suður-Kóreumaðurinn Kyung-shin, Gummersbach, sem varð markakóngur fjögur ár í röð; 1999-2002.

Bjarki Már Elísson getur kvatt Lemgo sem markakóngur í annað sinn á þremur árum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 Þegar ein umferð er eftir, hefur Daninn Íslandsættaði Hans Óttar Lindberg, Füchse Berlín, skorað 233 mörk. Ómar Ingi kemur svo með 231 mark og í þriðja sæti er markakóngurinn 2020, Bjarki Már Elísson, Lemgo, með 230 mörk. Þess má geta að Ómar Ingi hefur leikið einum leik færri en Hans Óttar og Bjarki Már.

Hans Lindberg getur orðið markakóngur þýsku 1. deildarinnar í þriðja sinn og í fyrsta sinn frá 2013. Mynd/EPA

 Hans Óttar hefur skorað 119 mörk úr vítaköstum, Ómar Ingi 111 mörk og Bjarki Már 77 mörk úr vítaköstum.

* Hans Óttar hefur skorað 20 mörk í síðustu þremur leikjum Füchse Berlín, sem mætir Flensburg heima í dag. Hann skoraði 4 mörk í fyrri leik liðanna.

* Ómar Ingi hefur skorað 31 mark í síðustu þremur leikjum Magdeburgar, sem mætir Rhein-Neckar Löwen heima. Hann skoraði 4 mörk í fyrri leik liðanna.

* Bjarki Már hefur skorað 26 mörk í þremur síðustu leikjum Lemgo, sem mætir Hamborg heima. Hann skoraði 8 mörk í fyrri leik liðanna.

 Ef leikmennirnir þrír skora jafn mörk og í fyrri leikjum liðanna, verður Bjarki Már markakóngur.

 Það er næsta víst að leikmenn Füchse Berlín, Magdeburgar og Lemgo leiki upp á að sínir menn skori sem flest mörkin. 

 Kiel gleymir ekki Gísla Þorgeiri!

 Gísli Þorgeir er annar íslenski leikmaðurinn sem hefur orðið meistari með tveimur liðum. Gísli með Kiel 2020 og Magdeburg 2022, Guðjón Valur Sigurðsson með Kiel 2013 og 2014, og með Rhein-Necker Löwen 2017.

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með Kiel. Mynd/THW Kiel

 Þegar Gísli var meistari með Kiel keppnistímabilið 2019-2020, var hann leikmaður liðsins fram til 23. janúar 2020 er hann skipti til Magdeburgar og meiddist illa á öxl í sínum fyrsta leik með liðinu. Hann var ekki í Kiel þegar leikmenn liðsins fögnuðu meistaratitlinum, en frábær heimasíða um árangur Kiel í gegnum tíðina, gleymdi ekki Gísla Þorgeiri þegar rifjað var upp hvaða leikmenn voru í meistaraliði Kiel 2020, undir fyrirsögninni: „Die Meister-Mannschaft 2019/2020.“


Birt er mynd af meistaraliðinu, þar sem má sjá Gísla Þorgeir í miðröðinni (Mitte von links:), þar sem voru leikmennirnir Rune Dahmke, Fynn Schröder, Niklas Landin, Dario Quenstedt og Gísli Thorgeir Kristjánsson.

 Það má sjá afrekalista og árangur Gísla Þorgeirs hjá Kiel, en þar stendur á heimasíðunni:

 Erfolge:

 Deutscher Meister 2020

 EHF-Pokalsieger 2019

 Deutscher Pokalsieger 2019.

 Já, Gísli Þorgeir varð þýskur meistari 2020, í meistaraliði Kiel í EHF Evrópukeppninni og þýskur bikarmeistari 2019. Gísli Þorgeir lék 10 af 34 leikjum Kiel í „Bundesligunni“, eða 30% af leikjum liðsins.

 Til hamingju Gísli Þorgeir, sem hefur skotið föður sínum ref fyrir rass; orðið meistari tvisvar, en pabbi hans, Kristján Arason, varð meistari einu sinni, með Gummersbach 1988.

Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -