Gísli Þorgeir Kristjánsson og Hollendingurinn Kay Smits fóru á kostum í liði SC Magdeburg í dag þegar liðið vann þrautseiga leikmenn HSV Hamburg, 32:28, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Smits, sem er í stóru hlutverki í fjarveru Ómars Inga Magnússonar, skoraði 12 mörk. Gísli Þorgeir fylgdi fast á eftir með átta mörk og tvær stoðsendingar. Hann geigaði aðeins á tveimur skotum.
Staðan var jöfn í hálfleik, 15:15, í GETEC Arena í Magdeburg að viðstöddum 6.600 áhorfendum. Meistarar Magdeburg voru sterkari á endasprettinum en lengi leit út fyrir að Hamborgarliðið ætla ekki að gefa sinn hlut.
Magdeburg er í fjórða sæti með 31 stig eftir 18 leiki. Füchse Berlin er efst með 35 stig en hefur lokið 20 leikjum.
Löwen áfram í öðru sæti
Rhein-Neckar Löwen er í öðru sæti með 33 stig eftir stórsigur á Stuttgart í Mannheim í dag, 41:27. Ýmir Örn Gíslason lék að vanda með Rhein-Neckar Löwen. Juri Knorr skorað 10 mörk fyrir Löwenliðið og Niklas Kireløkke var næstur með sjö mörk.
Teitur Örn Einarsson skoraði ekki mark fyrir Flensburg í 13 marka sigri liðsins á heimavelli á liðsmönnum Bergischer HC, 30:17. Arnór Þór Gunnarsson skoraði á hinn bóginn tvisvar sinnum fyrir Bergischer. Flensburg er í fimmta sæti með 30 stig. Bergischer situr í 11. sæti.
Hannover-Burgdorf vann öruggan sigur á Göppingen, 28:24. Leikið var á heimavelli Hannover-Burgdorf en Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari liðsins sem er í sjötta sæti.
Viðureign HC Erlangen og GWD Minden sem átti að fara fram í gær var frestað vegna veikinda nokkurra leikmanna GWD Minden.