„Það er gott að komast almennilega í gang,“ sagði landsliðskonan í handknattleik, Díana Dögg Magnúsdóttir, við handbolta.is í dag eftir að hún átti stórleik með BSV Sachsen Zwickau í níu marka sigri liðsins á heimavelli á Kirchhof, 34:25, í þýsku 2. deildinni í handknattleik.
Díana Dögg skoraði átta mörk í níu skotum auk þess að vera umsvifamikil í vörninni. „Gott að eiga stórleik í mikilvægum sigri,“ sagði Díana sem lék að vanda í sinni uppáhaldsstöðu í hægri skyttunni. Ekkert marka sinna skoraði hún úr vítakasti. Allt annað hvort með bylmingsskotum eða eftir gegnumbrot.
Staðan var jöfn í hálfleik, 14:14. Díana Dögg og félagar tóku öll völd á leikvellinum í síðari hálfleik og skildu leikmenn Kirchhof eftir rykinu.
„Við fengum blásara frá þjálfaranum í hálfleik sem kveikti í okkur auk þess sem markvarslan var einnig frábær hjá okkur,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is. Charley Zenner, markvörður Zwickau og samherji Díönu Daggar, var með ríflega 44% markvörslu þegar flautað var til leiksloka og munar um minna.
Mikil spenna er á toppi 2. deildar. Füchse Berlin er með 11 stig að loknum sex umferðum. Herrenberg og Zwickau er næst með 10 stig og þar á eftir er Leipzig með níu stig.