„Það var mjög gott að klára einvígið með almennilegum leik. Fyrri leikirnir voru svo spennandi að það reyndi mjög á hjartað í öllum, ekki síst áhorfendum,“ sagði Thea Imani Sturludóttir leikmaður Vals og landsliðsins eftir að Valur vann Stjörnuna, 27:20, í fjórða og síðasta leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik í TM-höllinni í gær.
Valur var með ágætt forskot lengst af leiksins en þó gerðist það þegar liðlega 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik að Stjörnunni tókst að minnka muninn í eitt mark, 16:15.
„Þær fóru í sjö á sex og þá riðlaðist leikur okkar aðeins en með tveimur mörkum okkar í autt mark Stjörnunnar á þessum tíma þá tókst okkur að hrista þær aðeins af okkur,“ sagði Thea og vitnaði til þess að Valur átti í erfiðleikum með að halda forskoti í fyrri viðureignum liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar. „Að þessu sinni tókst okkur að halda út til leiksloka án þess að hleypa Stjörnunni nokkurn tímann af alvöru inn í leikinn.”
Erum ungar og hraustar
Óvíst er hverjum Valur mætir í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Oddaleikur stendur fyrir dyrum á þriðjudaginn í einvígi ÍBV og Hauka. Fyrsti úrslitaleikurinn um Íslandsmeistaratitilinn verður á föstudaginn.
„Við erum spenntar fyrir að halda áfram. Mér er sama hver andstæðingurinn verður í úrslitum. Við hugsum fyrst og fremst um okkur sjálfar. Leikirnir við Stjörnuna hafa verið erfiðir og stutt á milli þeirra. Þeir hafa tekið sinn toll en við einbeitum okkur bara að endurheimt og að vera í sem bestu formi þegar að úrslitaleikjunum kemur. Við erum ungar hraustar og kvörtum ekki,“ sagði Thea Imani Sturludóttir með bros á vör í TM-höllinni í gær.