Egyptaland og Grænhöfðaeyjar mætast í úrslitaleik Afríkukeppninnar í handknattleik karla á morgun, mánudag, í Karíó. Þetta verður í fyrsta sinn sem lið Grænhöfðaeyja leikur til úrslita í keppninni en lið eyjanna eru nú með í annað sinn í keppninni.
Landsliðs Marokkó og Túnis mætast í bronsleiknum. Gínea og Alsír eigast við í leiknum um fimmta sætið en Afríka sendir fimm lið til leiks á heimsmeistaramótið sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð í janúar. Ljóst er að hvernig sem úrslitaleikirnir fara á morgun þá mæta landslið Egyptalands, Grænhöfðaeyja, Marokkó og Túnis til leiks á HM. Gínea og Alsír kljást um að verða fimmta liðið.
Egyptar, með sitt vaskasta lið, lenti í mesta basli á móti Túnis í undanúrslitum í gær. Þeim tókst að knýja fram sigur, 29:27, þegar upp var staðið. Túnisbúar voru marki undir í hálfleik, 17:16. Vegna meiðsla leikmanna hefur landsliðsþjálfari Túnis ekki getað stillt upp sínu sterkasta liði á mótinu.
Hafa ekki tapað leik
Landslið Grænhöfðaeyja vann Marokkó örugglega í undanúrslitum, 23:19. Grænhöfðeyingar hafa ekki tapað leik í keppninni og virðast til alls líklegir í úrslitaleiknum við Egypta.
Endasleppt á HM 2021
Grænhöfðaeyjar öðluðust keppnisrétt á HM í Egyptalandi 2021. Leikmenn, þjálfarar og aðstoðarmenn fóru illa út úr kórónuveirunni sem sló niður í æfingabúðum liðsins í Portúgal skömmu fyrir HM. Hluti leikmannahópsins ásamt aðstoðarþjálfara komst til Kaíró einkennlaus og tókst að leika einn leik á mótinu, gegn Ungverjum 34:27, áður en fleiri veiktust. Þar með urðu Grænhöfðeyingar að leggja árar í bát og draga lið sitt úr keppni.
Gæti mætt Íslandi á HM
Ef lið Grænhöfðaeyja verður Afríkumeistari tekur liðið sæti í G-riðli með Króatíu, Afríku3, og Bandaríkjum.
Hafni Grænhöfðeyingar í öðru sæti á Afríkumótinu taka þeir sæti í C-riði með Svíum, Brasilíubúum og Úrúgvæum. Það er sá riðill sem íslenska landsliðið leikur við í milliriðlum komist Íslands upp úr D-riðli. Þar með er ekki hægt að útiloka að Ísland og Grænhöfðaeyjar mætist í fyrsta sinn á handknattleiksvellinum í Svíþjóð í janúar.
Sterk tengsl um árabil
Þess má geta að lengi voru sterk tengsl á milli Íslands og Grænhöfðaeyja. Ísland veitti eyjunum þróunaraðstoð frá 1979 til 1993 og skipaði sendiherra í landinu.
Grænhöfðaeyjar eru nærri 600 km undan vesturströnd Afríku og bera nafn sitt af höfða á strönd Senegal. Á eyjunum býr um hálf milljón íbúa sem alla tíð hafa haft sterk tengsl við Portúgal enda voru eyjarnar fyrst byggðar af portúgölskum landnemum sem þangað komu að þeim óbyggðum á 15. öld. Eyjarnar urðu fljótlega miðstöð þrælaverslunar Portúgala og voru undir stjórn þeirra fram á áttunda áratug síðustu aldar þegar þeim var veitt sjálfstæði eftir fall einræðisherrans António de Oliveira Salazar sem ríkti áratugum saman í Portúgal.
Riðlaskipting HM karla 2023:
A: | Spánn | Svartfj.land | Chile | Íran |
B: | Frakkland | Pólland | S-Arabía | Slóvenía |
C: | Svíþjóð | Brasilía | Afríka2 | Úrúgvæ |
D: | Ísland | Portúgal | Ungv.land | S-Kórea |
E: | Þýskaland | Katar | Serbía | Afríka5 |
F: | Noregur | N-Makedónía | Argentína | Holland |
G: | Afríka1 | Króatía | Afríka3 | Bandaríkin |
H: | Danmörk | Belgía | Barein | Afríka4 |