Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í Kúveit máttu sætta sig við grátlegt tap fyrir Katar, 27:26, eftir framlengdan leik í undanúrslitum Asíumóts karla í Kúveit í dag. Katar hefur unnið Asíumótið í síðustu sex skipti og mætir fyrrverandi lærisveinum Arons í Barein í úrslitaleik á fimmtudag.
Kúveit mætir Japan í leiknum um þriðja sætið, sem fer einnig fram á fimmtudag.
Kúveit var 13:8 yfir í hálfleik og virtist vera að sigla mögnuðum sigri í höfn þegar staðan var 22:16 og skammt eftir. Ótrúlegur lokasprettur Katar þar sem liðið skoraði sex síðustu mörk venjulegs leiktíma sá hins vegar til þess að framlengingu þurfti til þess að skera úr um sigurvegara.
Þar var Katar skrefinu á undan og vann að lokum með einu marki. Aron er aðeins á sínu fyrsta stórmóti með Kúveit, sem hann tók við síðastliðið vor.
Barein, sem Aron þjálfaði um langt árabil, freistar þess að verða Asíumeistari í fyrsta sinn í sögunni.



