- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gríðarleg eftirvænting – Þorlákshafnarstúkan er enn í Eyjum

Búast má við frábærri Eyjastemingu annað kvöld þegar ÍBV og Haukar mætast í úrslitaleik Íslandsmóts karla í handknattleik í Vestmannaeyjum. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson - Olisdeildin
- Auglýsing -

Gríðarleg eftirvænting ríkir fyrir úrslitaleik ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla sem hefst í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum klukkan 19 á morgun, miðvikudag. Miðasala hefst í dag og er ekki við öðru búist en að miðarnir verði rifnir út og að margir stuðningsmenn Hauka fylgi liðinu eftir. Viðunandi veðurspá er fyrir morgundaginn með lítilli ölduhæð. Þar af leiðandi verður örugglega siglt til og frá Landeyjarhöfn. Fyrir stendur að hefja dýpkun hafnarinnar í kvöld.

Ekki þarf að spyrja um áhuga á meðal íbúa Vestmannaeyja sem ekki hafa látið sig vanta og stutt lið ÍBV með ráðum og dáð, að vanda.

Hafa ekki skilað stúkunni

Stúkan góða sem ÍBV fékk að láni frá grönnum sínum í Þorlákshöfn fyrir síðustu helgi er ennþá í íþróttamiðstöðinni enda fór helgin í annað hjá Eyjamönnum en í að skila henni. Stúkan verður væntanlega notuð, ef þörf verður á. Hún rúmar nærri 250 áhorfendur sem getur komið sér vel. Forsvarmenn ÍBV sögðu í gærkvöld að staðan á öllu í kringum úrslitaleikinn verði tekin snemma dags. Hraðar hendur verður að hafa við undirbúning leiksins sem laða mun að sér marga áhorfendur enda sjálfur Íslandsbikarinn í húfi.

Vertíðarstemning

Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV sem senn lætur af störfum, og hans vaska samstarfsfólk, lætur hendur standa fram úr ermum eins og endranær enda í góðri æfingu eftir marga úrslitaleiki, hvern annan stærri, í íþróttamiðstöðinni á síðustu vikum. Vertíðarstemning ríkir í Eyjum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -