„Auðvitað eru það gríðarleg vonbrigði fyrir okkur að vinna ekki þennan leik eins og stefnt var að,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram eftir eins marks tap á heimavelli fyrir KA/Þór, 21:22, í sjöundu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld.
Framliðið byrjaði vel og skoraði sjö af fyrstu níu mörkum leiksins. Allt virtist leika í lyndi en af einhverjum ástæðum þá hrökk flest í baklás og liðið skoraði aðeins fjögur mörk á síðustu 20 mínútunum. Einar sagði það vera ljóst að þegar liðið lenti í brekku á leið sinn reyndist því erfitt að vinna sig áfram og upp brekkuna og í gegnum erfiðustu skaflana.
Mjög slök nýting
„Skotnýtingin var slök. Við getum ekki farið með 18 eða 19 færi í einum leik, stærstur hlutinn er hraðaupphlaup, færi af línunni eða vítaköst. Það vinnur enginn handboltaleik með slíkri nýtingu,“ sagði Einar og var þungur á brún.
„Mistökin voru of mörg og eitthvað sem við viljum ekki sjá nema í lágmarki. Það verður að skrifast á reikning aga- eða einbeitingarleysis. Þá verða allir ósáttir, bæði ég og leikmenn. Við reyndum að gera breytingar en þær skiluðu sér ekki enda er sama hvaða breytingar menn gera á leik liðsins, ef boltinn fer ekki netið þá skipta breytingarnar einar og sér ekki miklu.“
Miklar breytingar hafa orðið á liði Fram frá síðasta tímabili. Margir nýir og ungir leikmenn eru í hópnum auk nýs þjálfara. Eldri leikmenn hafa dregið saman seglin eða eru í leyfi. Einar segir að e.t.v. skýri það sveiflur í leik Fram sem hafi á tíðum leikið mjög vel en einnig fallið niður á köflum.
Ekkert svartnætti
„Við erum í öldudal um þessar mundir en vinnum okkur út úr honum. Við verðum að vinna í okkar málum. Það er ekkert svartnætti, langt í frá,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram.
Berglind Þorsteinsdóttir lék ekki með Fram í leiknum. Hún verður frá keppni í einhverjar vikur að sögn Einars.
Tengdar fréttir:
Myndskeið: Annar sigur KA/Þórs, Stjarnan af botninum og öruggt hjá Haukum
Leikjavakt: Þrjár viðureignir í 7. umferð
Við börðumst eins og ljón fyrir stigunum