„Við erum fyrst og fremst gríðarlega spenntir fyrir að fara í nágrannaslag við Þórsara,“ segir Andri Snær Stefánsson þjálfari KA í samtali við Egil Bjarna Friðjónsson ljósmyndara á Akureyri um væntanlega grannaslag KA og Þórs í KA-heimilinu á fimmtudagskvöld. Viðureignin verður sú fyrsta á milli grannliðanna í Olísdeildinni í rúm fjögur ár, eða frá því að þau skildu jöfn, 19:19, í KA-heimilinu vorið 2021.
„Þetta er ein helsta ástæðan fyrir því að maður er í þessu, það að spila fyrir framan þúsund manns,“ segir Daði Jónsson baráttujaxl KA-liðsins í viðtali við Egil Bjarna.
Lengra viðtal við þá Daða og Andra Snæ er að finna hér fyrir ofan.
Mikil stemning ríkir á Akureyri fyrir viðureigninni sem hefst klukkan 19.30 á fimmtudag. Aðgöngumiðar hafa runnið út eins og heitar lummur en félögin hafa séð um að selja miða til stuðningsmanna þótt um sé að ræða heimaleik KA.
Beint á Handboltapassanum
Þeir sem ekki eiga þess kost að vera í KA-heimilinu á fimmtudagskvöld geta horft á leikinn í útsendingu Handboltapassans.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.




