- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gríðarlega spenntur fyrir að byrja þetta partí

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður SC Magdeburg í viðtali í hótelgarði í Köln í dag. Mynd/Ívar.
- Auglýsing -

„Maður er svo sannarlega reynslunni ríkari núna þegar maður tekur þátt í úrslitum Meistaradeildarinnar í annað sinn, hvað hentar að gera og hvað ekki. Ég er bara gríðarlega spenntur fyrir að byrja þetta partí á morgun,” sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður SC Magdeburg þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli í garði hótelsins í Köln þar sem Gísli Þorgeir og aðrir leikmenn og þjálfarar liðanna fjögurra búa yfir helgina þegar leikið verður til úrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik.

SC Magdeburg vann keppnina á síðasta ári eftir úrslitaleik við Indurstri Kielce.

Undaúrslitaleikir laugardaginn 8. júní:
SC Magdeburg - Aalborg Håndbold, kl. 13.
Barcelona - THW Kiel kl. 16.
Hægt verður að horfa á báða leiki án endurgjalds á EHFtv.com.Úrslitaleikirnir á sunndaginn fara fram á sama tíma og verða einnig aðgengilegir á EHFtv.com.

Meiddur reið Gísli baggamuninn

Gísli Þorgeir reið ekki hvað síst baggamuninn fyrir SC Magdburg fyrir ári þegar liðið vann Meistaradeildina í fyrsta sinn í 21 ár. Hann lét það ekki afra sér frá þátttöku í úrslitaleiknum að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitaleiknum. Gísli Þorgeir fór á kostum í báðum leikjum helgarinnar á síðasta ári.

Líka Ómar og Janus

Auk Gísli Þorgeirs verða landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon í eldlínunni á morgun með SC Magdeburg gegn nýkrýndum Danmerkurmeisturum Aalborg Håndbold í undanúrslitaleiknum. Sigurliðið mætir annað hvort Barcelona eða THW Kiel í úrslitaleik á sunnudaginn. Hvorki Ómar Ingi né Janus Daði hafa áður tekið þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar sem leikmenn. Ómar Ingi var frá keppni vegna meiðsla þegar SC Magdeburg vann Meistaradeildina fyrir ári. 

Í sögubækurnar

„Ef við vinnum keppnina annað árið í röð þá erum við sannarlega að skrá okkur í sögubækurnar sem eitt allra besta lið í handboltasögunni. Það á að gefa okkur extra búst,” sagði Gísli Þorgeir.

Bennet Wiegert þjálfari SC Magdeburg getur orðið fyrsti þjálfarinn í sögunni til þess að vinna Meistaradeild Evrópu tvö ár í röð eftir byrjað var að leika til undanúrslita og úrslita á einni helgi í Köln 2021. Barcelona vann tvö ár í röð, 2021 og 2022 en þjálfaraskipti urðu hjá liðinu sumarið 2021. Mynd/Ívar

SC Mageburg hefur þegar unnið þýska meistaratitilinn og bikarkeppnina. Þess utan vann liðið heimsmeistaramót félagsliða í nóvember. Með sigri í Meistaradeildinni getur Magdeburg unnið einstakt afrek, þ.e. að vinna fjóra stóra meistaratitla á sama tímabili.

Ekkert gefið

„Ekkert er samt gefið. Oft hefur komið í ljós að þau lið sem fæstir reikna með að vinni standi uppi sem sigurvegarar. Fyrirkomulagið með tveimur leikjum á tveimur dögum gerir það að verkum að auðvelt er að koma andstæðingnum í opna skjöldu.

Eftirsóknarverð staða

Við erum ekki í þeirri stöðu núna að vera taldir minniháttar. Flestir reikna með okkur í úrslitum sem er mjög skemmtilegt. Menn eiga líka að njóta þess að vera taldir bestir og vera bestir og ná árangri. Það er eftirsótt að vera í þeirri stöðu. Ég hlakka til að takast á við það,” sagði Gísli Þorgeir.

Vil láta ljós okkar skína

Spurður hvernig staðan á honum væri fyrir síðustu tvo leiki tímabilsins sagði Gísli Þorgeir stöðuna vera góða.

„Ég fékk smá högg á hnéið í næstsíðustu umferð deildarinnar gegn Rhein-Neckar Löwen. Þess vegna sat ég yfir í síðasta leiknum í þýsku deildinni gegn Wetzlar á heimavelli. Ég hef þar með safnað nægum kröftum, er alveg klár í þessa leiki og með það að markmiði að láta ljós okkar í Magdeburg skína,” sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður SC Magdeburg eldhress í sólinni og sumrinu í Köln.

Sjá einnig:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -