„Við vorum búnir að vinna okkur til baka og eigum yfirtölu í síðustu sókninni, sem við leysum ekki nógu vel,“ sagði Viggó Kristjánsson í samtali við handbolta.is eftir svekkjandi jafntefli Íslands við Sviss í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í Svíþjóð í dag.
Ísland hefði getað stolið sigrinum en tókst ekki að gera sér mat úr síðustu sókn leiksins.
Sviss kippti Íslandi niður á jörðina – möguleikinn á undanúrslitum fjarlægist
„Ég ætla ekki að fara að setja eitthvað út á Gísla, hann er búinn að spila frábærlega allt mótið og í þessum leik. Svo fannst mér við eiga einhverjar fleiri sekúndur eftir á klukkunni.
Mér fannst þeir of lengi að stoppa klukkuna á dómaraborðinu þegar dómararnir stöðva tímann þannig að það var eiginlega ekki tími í neitt annað en eitthvað snöggt skot þarna í lokin. Þetta var svekkjandi,“ sagði Viggó um síðustu sókn íslenska landsliðsins í leiknum en í henni hefði íslenska liðið getað stolið sigrinum.
Hálfgert gatasigti
Leiknum lauk 38:38 og óhætt að segja að aldrei hafi náðst nein festa í varnarleik íslenska liðsins.
„Því miður var þetta hálfgert gatasigti einhvern veginn. Það var eiginlega sama hvað horft er á, einhvern veginn enduðu þeir alltaf í færum eða ágætis færum og boltinn endaði inni. Það var enginn taktur í varnarleiknum, því miður,“ sagði hann.
Úrslitin setja strik í reikninginn fyrir framhaldið.
„Ég veit ekki einu sinni hvað þetta þýðir. Það verður bara að koma í ljós. Þetta er gríðarlega svekkjandi og algjör óþarfi. En að sama skapi er Sviss gott lið og er búið að vera í hörkuleikjum held ég nánast alltaf. Þetta var algjört klúður fannst mér,“ sagði Viggó Kristjánsson við handbolta.is.


