- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gríðarlegur áhugi fyrir oddaleiknum – stöðvuðu miðasölu – hefst aftur í dag

Troðfullt var og rífandi góð stemning var að Varmá á þriðja leik Aftureldingar og Hauka. Reiknað er með að hún verði enn meiri annað kvöld. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

„Áhuginn er gríðarlega mikill og eftirspurnin eftir miðum alveg hreint rosaleg. Við munum gera okkar besta til þess að svara eftirspurninni en því miður er ljóst að færri muni fá miða en vilja einfaldlega vegna þess að aðstaðan sem við búum við er takmörkuð,“ sagði Haukur Sigurvinsson formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar í samtali við handbolta.is í morgun.

Hvaða kostir eru í stöðunni?

Haukur og samstarfsmenn Aftureldingar eru þessa stundina sveittir við að velta upp hvaða möguleikar séu fyrir hendi til að auka á aðstöðu fyrir áhorfendur fyrir oddaviðureign Aftureldingar og Hauka í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik sem fram fer á Varmá annað kvöld, þriðjudag, og hefst klukkan 20.15.

Mynd/Raggi Óla

Hefst aftur klukkan 12

„Við stöðvuðum miðasölu á Stubb fljótlega eftir sigurinn á Haukum í gær meðan við erum að ná utan um stöðuna og setja niður fyrir pkkur hvaða aðstöðu verður hægt að koma upp. Við hefjum miðasölu aftur klukkan 12 á Stubb. Þá kemur talsverður skammtur af miðum í sölu og síðan munum við bæta við miðum í sölu þegar ljóst verður hversu mörgum áhorfendum við getum tekið á móti til viðbótar,“ sagði Haukur sem vonast til að hægt verði að koma liðlega 1.000 áhorfendum fyrir með góðu móti.

„Það er hinsvegar alveg ljóst að margir verða að gera sér góðu að standa allan leikinn og því miður einnig einhverjir sem ekki munu fá miða.“

Pallar og stólar

Haukur segir að stúkan að Varmá rúmi um 800 áhorfendur. Til viðbótar verði sett upp bráðabirgðaaðstaða á pöllum fyrir aftan varamannabekkina, gegnt stúkunni. Eins sé verið að skoða möguleika þess að raða upp stólum á ákveðnum svæðum í salnum, t.d. fyrir aftan annað markið þar sem þokkalegt pláss sé fyrir hendi. Um leið verði að hugsa um öryggi áhorfenda þegar svona margt fólk kemur saman.

Árni Bragi Eyjólfsson, Aftureldingu, og Heimir Óli Heimisson, Haukum, eigast við annað kvöld. Mynd/Raggi Óla

Gríðarlegur áhugi

Áhugi Mosfellinga fyrir handboltaliði sínu er gríðarlegur. Sigur liðsins í Poweradebikarnum í mars varð enn til þess að kveikja í fleirum til þess að fylkja sér á baki við félagið og klæðast rauðum JAKO-treyjunum.

Fjölskylduskemmtun að Varmá

Að vanda verður mikið um dýrðir í Mosfellsbæ í kringum leikinn og er rétt að minna á að um fjölskylduskemmtun er að ræða.

Dagskráin verður kynnt á samfélagssíðum handknattleiksdeildar Aftureldingar. Áhorfendur eru hvattir til að mæta snemma og njóta veitinga í vallarhúsinu í nágrenni íþróttahússins þar sem funheitir og ljúffengir hamborgarar verða framreiddir meðan matarlyst verður fyrir hendi. Ekki mun veita af því allt verður lagt í sölurnar utan vallar sem innan þegar leikurinn hefst. Sæti í úrslitum Íslandsmeistaratitilinn er í boði fyrir sigurliðið.

Síðast fyrir 7 árum

Afturelding hefur ekki leikið um Íslandsmeistaratitilinn síðan 2016.

Leikurinn hefst klukkan 20.15 annað kvöld. Ekki er mögulegt að hefja leikinn fyrr vegna úrslitaleiks Vals og ÍBV í Olísdeild kvenna sem hefst klukkan 18 og mögulegrar framlengingar og þar af leiðandi árekstra sjónvarpsútsendingar frá leikjunum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -