- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grikkir reyna að slá Valsmenn út af laginu – skipta um leikstað

Magnús Óli Magnússon, Róbert Aron Hostert og félagar í Val láta ekki svo auðveldlega slá sig út af laginu. handbolti.is/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
- Auglýsing -

Forráðamenn gríska liðsins Olympiacos hafa tekið u-beyju varðandi leikstað fyrir síðari úrslitaleik Olympiacos og Vals í Evrópubikarkeppninni í handknatleik karla næsta laugardag. Í gær var hætt við að leika í 2.000 manna keppnishöll í sumarleyfisbænum Chalkida, um 80 km austur af Aþenu. Þess í stað fer leikurinn fram í körfuknattleikshöll Olympiacos í Aþenu.

Um er að ræða gríðarlegt mannvirki sem rúmar á annan tug þúsund áhorfenda. Ljóst að stjórnendur Olympiacos ætla að leggja allt í sölurnar til þess að vinna leikinn. Handknattleikslið Olympiacos leikur aldrei í körfuknattleikshöllinni enda áhugi fremur lítill fyrir handknattleik í höfuðborginni, alltént í samanburði við körfuknattleikinn.

Allir bókaðir í Chalkida

„Þeir gera allt til þess að rugga bátnum,“ sagði Jón Halldórsson formaður handknattleiksdeildar Vals í samtali við handbolta.is. Jón segir breytinguna setja strik í reikninginn vegna farar Valsliðsins, maka leikmanna og fjölda stuðningsmanna sem ætlar að slást með í förina.

„Við vorum með alla hópinn bókaðan á hótel í Chalkida en erum að vinna í breytingum,“ sagði Jón ennfremur sem fékk veður af breyttum leikstað í gær í tilkynningu frá handknattleikssambandi Evrópu, EHF.

Frá leik Olympiacos Piraeus and Fenerbahce frá Tyrklandi í körfuknattleikshöll Olympiacos í Aþenu. Ljósmynd/EPA

Körfuknattleikshöll Olympiacos nefnist Peace and Friendship Stadium upp á ensku eða Stadio Eirinis kai Philias á grísku. Hún rúmar rúmlega 14 þúsund áhorfendur og er mikil gryfja. Um er að ræða fjölnota íþróttahöll sem m.a. hefur hýst stórmót í frjálsíþróttum auk fjölda tónleika af ýmsu tagi.

Stóð aldrei til

Heimavöllur handknattleiksliðs Olymiacos er lítið íþróttahús sem rúmar 1.100 áhorfendur, og er komið nokkuð til ára sinna. Þar mættust landslið Íslands og Grikklands í fyrri vináttuleiknum í handknattleik karla um miðjan mars. Frá upphafi var ljóst að félagið ætlaði ekki að láta úrslitaleikinn fara fram þar. Þess vegna var tilkynnt fyrir nærri þremur vikum að leikið yrði í sumarleyfisbænum Chalkida, um 80 km austur af Aþenu, sem nú hefur verið horfið frá.

Er nægur áhugi?

Hitt er svo annað mál hvort áhugi sé nægur í Aþenu fyrir handknattleik til þess að hægt verði að hálffylla körfuboltahöllina af stuðningsmönnum á úrslitaleiknum á laugardaginn. Gríska landsliðið leikur nær aldrei í Aþenu vegna áhugaleysis fyrir íþróttinni. Þess í stað fara flestir veigameiri landsleikir fram í Kozani, nærri landamærunum við Norður Makedóníu. Í Kozani er ævinleg fullt hús í 3.000 manna íþróttahöll.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -