Grótta og HK hrósuðu sigri í upphafsleikjum 9. umferðar Grill 66-deildar kvenna í handknattleik í gærkvöld. Þráðurinn var tekinn upp í deildarkeppninni í gærkvöld eftir nærri tveggja vikna hlé. Með sigrinum færðist Grótta upp að hlið Selfoss í efsta sæti Grill 66-deildar kvenna. Selfoss á leik til góða og mun ekki mæta aftur fram á völlinn fyrr en eftir áramótin vegna þess að tveir leikmenn liðsins eru í íslenska landsliðinu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer um þessar mundir.
Þrátt fyrir góðan sigur HK á Fjölni, 24:18, þá er liðið áfram í sjötta sæti með átta stig, stigi á eftir Fram U. HK var yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:8, í Kórnum í gærkvöld. Nánari upplýsingar er því miður ekki að fá vegna bilunnar í kerfi HBStatz sem heldur utan um tölfræði leikja Íslandsmótsins í handknattleik.
Bilunin kom ekki í veg fyrir að hægt væri að skrá sigur á Gróttu í leik liðsins við Víkings í Hertzhöllinnni, 25:19. Gróttuliðinu gekk illa að skora framan af leik en þegar flóðgáttirnar opnuðust komu mörkin nánast eins og á færibandi. Í hálfleik var forskot heimaliðsins sex mörk, 13:7.
Víkingar mættu af krafti til síðari hálfleiks og tókst að skora þrjú fyrstu mörkin og minnka muninn í 13:10. Lengra komust Víkingar ekki. Leikmenn Gróttu tóku völdin á ný og unnu öruggan sigur.
Staðan í Grill 66-deildum og næstu leikir – ath að úrslit leiks HK og Fjölnis hafa ekki verið færð inn.
Mörk Gróttu: Ólöf María Stefánsdóttir 7, Ída Margrét Stefánsdóttir 6, Lilja Hrund Stefánsdóttir 3, Þóra María Sigurjónsdóttir 3, Rut Bernódusdóttir 3, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 2, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.
Varin skot: Anna Karólína Ingadóttir 14.
Mörk Víkings: Auður Brynja Sölvadóttir 6, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 5, Mattý Rós Birgisdóttir 4, Hafdís Shizuka Iura 2, Katrín Hallgrímsdóttir 1, Díana Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Signý Pála Pálsdóttir 15.